Ólympíumeistari kemur út úr skápnum

Olga Jegorova frá Rússlandi, Kelly Holmes frá Bretlandi, Nahida Touhami …
Olga Jegorova frá Rússlandi, Kelly Holmes frá Bretlandi, Nahida Touhami frá Alsír og Daniela Yordanova frá Búlgaríu. AP

Dame Kelly Holmes, tvöfaldur ólympíumeistari, er komin út úr skápnum eftir að hafa haldið kynhneigð sinni leyndri í 34 ár.

Holmes vann tvö gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004 í 800 metra og 1.500 metra hlaupi og sló fjölmörg met áður en hún batt enda á ferilinn árið 2005.

„Ég verð að gera þetta núna, fyrir mig. Þetta var mín ákvörðun. Ég er stressuð fyrir því að segja þetta. Mér líður eins og ég sé að springa úr spenningi,“ sagði Kelly í samtali við Sunday Mirror.

Kelly segist hafa vitað að hún væri samkynhneigð þegar hún kyssti kvenkyns hermann þegar hún var 17 ára gömul og vinir hennar og vandamenn hafa vitað það síðan 1997.

„Stundum græt ég af því að þetta er svo mikill léttir. Ég losna undan óttanum þegar að þetta verður orðið opinbert.“

Kelly óttaðist að henni yrði vísað úr hernum vegna kynhneigðar sinnar og segir það hafa haft mikil áhrif á geðheilsuna. Hún faldi kynhneigð sína vegna þess að hún óttaðist að hún yrði dregin fyrir herrétt en samkyn- og tvíkynhneigðum var meinaður aðgangur að herþjónustu á Bretlandseyjum til árins 2000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert