Áfall fyrir danska landsliðið

Nikolaj Jakobsen talar við sína menn.
Nikolaj Jakobsen talar við sína menn. AFP/Sebastien Berda

Nikolaj Jacobsen, þjálfari karlaliðs Danmerkur í handknattleik, neyðist til að gera tvær breytingar á leikmannahópi sínum fyrir leikinn gegn Argentínu á Ólympíuleikunum í París annað kvöld. 

Danir mæta Argentínumönnum í þriðju umferð Ólympíuleikana en danska liðið hefur farið vel af stað og er með fullt hús stiga eftir tvo sterka sigurleiki gegn heimamönnum Frökkum og Egyptum. 

Báðir línumenn danska liðsins verða fjarverandi gegn Argentínu á morgun en Magnus Saugstrup og Simon Hald meiddust gegn Egyptum í gær. 

Magnus Saugstrup er lykilmaður í danska landsliðinu.
Magnus Saugstrup er lykilmaður í danska landsliðinu. AFP/Damien Meyer

Það kom fljótlega í ljós að meiðsli Hald væru alvarlega. Vonast var til þess að Saugstrup gæti tekið þátt í næsta leik en svo verður ekki. 

Jacobsen segist vona að hann geti tekið þátt síðar í keppninni, en að það sé ekki ljóst. 

Línumaðurinn Lukas Jörgensen og skyttan Lasse Andersson koma inn í þeirra stað. 

Simon Hald ásamt Frakkanum Luka Karabatic.
Simon Hald ásamt Frakkanum Luka Karabatic. AFP/Damien Meyer
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert