Ástralski sundþjálfarinn Brett Hawke segir kínverska sundkappann Pan Zhanle sekan um notkun ólöglegra lyfja.
Zhanle var heilli sekúndu fljótari en næstu menn þegar hann tryggði sér gullverðlaun í hundrað metra skriðsundi og bætti eigið heimsmet á Ólympíuleikunum í París á miðvikudaginn.
Hawke er sjálfur Ólympíufari og í myndbandi á Instagram síðu hans segist hann vera reiður eftir sundið.
„Ég hef fylgst með besta sundfólki heims í þrjátíu ár og er sérfræðingur í íþróttinni. Ég er reiður vegna þess að þú getur ekki verið heilli líkamslengd á undan næsta manni í hundrað metra skriðsundi. Það er ekki mögulegt fyrir nokkurn mann“, segir Hawke meðal annars.
Eldræðu Hawke má sjá hér að neðan.