Fólk hagar sér eins og það vill á Ólympíuleikunum

Hákon Þór Svavarsson og Nikolaos Mavrommatis kátir í dag.
Hákon Þór Svavarsson og Nikolaos Mavrommatis kátir í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er hvorki ánægður né óánægður með stigafjöldann,“ sagði Nikolaos Mavrommatis grískur þjálfari Hákons Þórs Svavarssonar eftir að Hákon lauk keppni í leirdúfuskotfimi á Ólympíuleikunum í dag. Ólíkt flestum íþróttum á leikunum fer skotfimin ekki fram í París heldur Châteauroux, suður af höfuðborginni.

„Hákon var óheppinn í dag. Hann hefði auðveldlega getað verið með fleiri stig því þrjár dúfur voru alveg við það að brotna. Litlu smáatriðin skipta svo rosalega miklu,“ sagði Mavrommatis.

Hákon er að keppa á sínum fyrstu Ólympíuleikum og sá gríski er ánægður með Íslandsmeistarann, sem var að keppa í krefjandi aðstæðum.

„Ég er ánægður með frammistöðuna hjá Hákoni og hvernig hann hélt einbeitingu. Það er mjög erfitt að einbeita sér með þessa áhorfendur. Stundum heyrðist of mikið í þeim þegar Hákon var að skjóta. Hann náði að halda ró sinni þrátt fyrir það.

Venjulega heyrist ekkert í þessum keppnum nema á Ólympíuleikunum og áhorfendur þaga. Það breytist svo í úrslitunum en í undankeppninni fá skotmenn frið til að skjóta. Á Ólympíuleikunum hagar fólk sér eins og það vill,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert