Þýskaland er komið í undanúrslitin í knattspyrnukeppni kvenna á Ólympíuleikunum í Frakklandi eftir sigur á ríkjandi ólympíumeisturum Kanada í vítaspyrnu eftir markalausan, framlengdan leik í Marseille.
Þýska liðið vann vítaspyrnukeppnina 4:2 og mætir nú Bandaríkjunum í undanúrslitum. Í hinum leiknum leika Spánverjar gegn sigurvegurunum úr leik Frakklands og Brasilíu sem nú stendur yfir.
Ann-Katrin Berger markvörður var hetja Þjóðverja en hún varði tvær vítaspyrnur frá kanadísku konunum.
Eyjakonan Cloé Lacasse kom inn á sem varamaður hjá Kanada á 56. mínútu gegn Þýskalandi í kvöld.
Kanada er því úr leik án þess að tapa leik. Liðið vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og komst áfram þrátt fyrir að sex stig væru dregin af því fyrir ólöglegar njósnir þjálfarateymis liðsins um andstæðingana.