Stjarnan Shelly-Ann Fraser-Pryce frá Jamaíku var ekki með í 100 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í París í gær, en hún var fyrir fram talin líkleg til að berjast um verðlaun á sínum síðustu leikum.
Lítið var vitað um fjarveru Fraser-Pryce í gær en myndbönd á samfélagsmiðlum í gærkvöldi gáfu til kynna að henni hefði ekki verið hleypt inn á Stade de France-leikvanginn þar sem hún fór inn um rangan inngang. Virtist hún vera að rífast við rútubílstjóra vegna þessa.
Stuðningsmenn hlauparans voru bálreiðir á samfélagsmiðlum vegna myndbandanna og voru skipuleggjundum leikanna í frönsku höfuðborginni ekki vandaðar kveðjurnar.
Ludlow Watts þjálfari hennar staðfesti hins vegar við fjölmiðla í heimalandinu að Fraser-Pryce hefði dregið sig úr keppni vegna meiðsla og hún tjáði sig sjálf um það í dag.
„Það er erfitt að finna réttu orðin til að lýsa vonbrigðum mínum,“ skrifaði hún m.a. á samfélagsmiðla og þakkaði fyrir góðan stuðning.