Svíinn sló eigið heimsmet

Arman Duplantis kátur eftir að hann sló eigið heimsmet.
Arman Duplantis kátur eftir að hann sló eigið heimsmet. AFP/Kirill Kudryavtsev

Sænski stangarstökkvarinn Armand Duplantis heldur áfram að skrá sig í sögubækurnar. Í kvöld sló hann eigið heimsmet á Ólympíuleikunum í París, vann ólympíugull og setti um leið ólympíumet.

Fyrra met Duplantis frá því í apríl á þessu ári var 6,24 metrar. Í kvöld gerði hann einum sentimetra betur er hann fór yfir 6,25 metra í þriðju og síðustu tilraun sinni.

Ólympíumetið var 6,03 metrar, sem Brasilíumaðurinn Thiago Braz setti á leikunum í Ríó árið 2016.

Duplantis varð einnig ólympíumeistari í stangarstökki á leikunum í Tókýó árið 2021 og er ríkjandi heims- og Evrópumeistari.

Í kvöld hafnaði Sam Kendricks frá Bandaríkjunum í öðru sæti og vann til silfurverðlauna en hann fór mest yfir 5,95 metra.

Í þriðja sæti var Emmanouil Karalis frá Grikklandi sem fór hæst yfir 5,9 metra og tryggði sér brons.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert