Gerði ráð fyrir aðeins meiru frá Antoni

Anton Sveinn McKee komst ekki í úrslit í 200 metra …
Anton Sveinn McKee komst ekki í úrslit í 200 metra bringusundi. Kristinn Magnússon

Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ, er nokkuð sáttur við árangur sundfólksins Antons Sveins McKee og Snæfríðar Sólar Jórunnardóttur á Ólympíuleikunum í París. Þau komust bæði í undanúrslit í sínum sterkustu greinum og áttu sína bestu Ólympíuleika til þessa.

„Ég er nokkuð ánægður með þau bæði í sundinu því þau komust bæði í undanúrslit. Ég gerði samt ráð fyrir aðeins meira frá Antoni í undanúrslitunum, þar sem ég vildi sjá hann í topp tólf því það var séns.

Snæfríður með 15. sæti í 200 og 19. sæti í 100 er gott. Ég veit hún vildi synda hraðar, þar sem hún vill helst setja Íslandsmet í hvert skipti sem hún fer í laugina en hér á Ólympíuleikunum snýst þetta um í hvaða sæti þú ert og hvort þú ert að bæta þig.

Vésteinn Hafsteinsson.
Vésteinn Hafsteinsson. Kristinn Magnússon

Á síðustu Ólympíuleikum var hún í 22. sæti og nú í 15. og svo var hún að synda vel í 100 metrunum líka. Ég er mjög ánægður með Snæfríði. Anton er með miklar kröfur til sjálfs síns og þótt 15. sæti sé hans besti árangur á Ólympíuleikunum er það aðeins slakara en hann vildi,“ sagði Vésteinn og hélt áfram:

„Það breytir því ekki að hann kemst lengra en nokkurn tímann áður á síðustu leikunum. Hann synti líka vel í 100. Tímarnir í lauginni hafa verið hægir og 2:10,00 er eins og 2:09,50. Hann reyndi og reyndi mikið en hann stífnaði aðeins og var aðeins styttri í hreyfingum síðustu 20-30 metrana sem gerði það að verkum að hann tapaði 3-4 sætum.

Heilt yfir er ég ánægður með sundfólkið. Þau syntu 3-4 sund og gerðu það vel. Ég vil óska Sundsambandinu, Eyleifi og Sergio til hamingju með það,“ sagði Vésteinn Hafsteinsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert