Búinn að læra tíu íslenska frasa

Brek Christensen er á sínum fyrstu Ólympíuleikum.
Brek Christensen er á sínum fyrstu Ólympíuleikum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er æðislegt og sjaldgæft tækifæri. Ég er rosalega spenntur fyrir hönd Ernu,“ sagði bandaríski þjálfarinn Brek Christensen í samtali við mbl.is. Christensen þjálfar kúluvarparann Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur, en hún er á sínum fyrstu Ólympíuleikum og hefur leik klukkan 8.25 í dag.

„Hún er einn fyrsti afreksíþróttamaðurinn sem ég þjálfa. Ég þjálfa í háskólanum hennar í Bandaríkjunum. Að sjá hana vaxa sem manneskja og íþróttakona hefur verið sérstakt. Hún hefur þroskast mikið. Hún virðist vera með sjálfstraustið í lagi og róleg. Hún er ekki að stressa sig mikið á að vera komin hingað,“ sagði hann um Ernu.

Erna er í 31. sæti af 32 keppendum á styrkleikalista fyrir leikana. Það verður því þrautin þyngri að enda á meðal 12 efstu og fara í úrslit.

Kristinn Magnússon

„Hún er ung að keppa á móti þar sem reynslan er mikilvæg. Hún gerði mjög vel á Meistaramóti Íslands. Vonandi heldur það áfram og þá á hún góða möguleika á að bæta sig. Hún er í 31. sæti á styrkleikalistanum og allt fyrir ofan það yrði flottur árangur. Vonandi nær hún að slá Íslandsmetið sitt.“

Christensen er umkringdur Íslendingum þessa dagana því hann er í íslenska teyminu í ólympíuþorpinu í París. „Þetta hefur verið mjög gott. Þau hafa tekið vel á móti mér og verið virkilega góð. Ég er búinn að læra um tíu íslenska frasa og ég reyni hvað ég get að læra.“

Bandaríski þjálfarinn er örlítið stressaður enda að fara að þjálfa íþróttamann á Ólympíuleikunum í fyrsta skipti.

Kristinn Magnússon

„Ég er smá stressaður, sem þýðir að þú ert mannlegur. Ég er líka virkilega spenntur og get ekki beðið. Nú er það undir henni komið, hringurinn og kúlan eru jafn stór og þung og á öðrum mótum.

Þetta eru mínir fyrstu leikar og ég hef aldrei séð svona magnaðan völl. Þetta er virkilega sérstakt allt saman,“ sagði Bandaríkjamaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert