Gestgjafarnir í úrslit

Frakkar fagna sigrinum í dag.
Frakkar fagna sigrinum í dag. AFP/Aris Messinis

Karlalið Frakklands í körfuknattleik tryggði sér sæti í úrslitaleiknum á Ólympíuleikunum í París með því að leggja Þýskaland að velli, 73:69, eftir hörkuleik í undanúrslitum í dag.

Frakkland mætir því annað hvort Bandaríkjunum eða Serbíu í úrslitum á laugardag.

Leikurinn í dag var bráðfjörugur og kaflaskiptur. Þjóðverjar byrjuðu betur og voru sjö stigum yfir, 18:25, að loknum fyrsta leikhluta.

Forystan var hins vegar að engu orðin þegar hálfleik bar að garði þar sem staðan var orðin 33:33.

Í síðari hálfleik náðu Frakkar undirtökunum og komust mest 13 stigum yfir, 66:53, snemma í fjórða leikhluta.

Þjóðverjar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í aðeins tvö stig, 70:68, þegar skammt var eftir. Eftir mikla spennu tókst Frökkum að sigla fjögurra stiga sigri í höfn.

Guerschon Yabusele var stigahæstur hjá Frakklandi með 17 stig og sjö fráköst og Isaia Cordinier bætti við 16 stigum og sjö fráköstum.

Stigahæstur í leiknum var Dennis Schröder með 18 stig fyrir Þýskaland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert