Sló heimsmet í „litlu“ úrslitaviðureigninni

Sam Watson ánægður með bronsverðlaunapeninginn og nýja heimsmetið.
Sam Watson ánægður með bronsverðlaunapeninginn og nýja heimsmetið. AFP/Jonathan Nackstrand

Bandaríkjamaðurinn Sam Watson sló eigið heimsmet í hraðklifri þegar hann hafði betur gegn Reza Alipour frá Íran í bronsviðureigninni á Ólympíuleikunum í París í morgun.

Watson klifraði á 4,74 sekúndum í „litlu“ úrslitaviðureigninni eins og bronsviðureignin kallast og sló þannig eigið met frá því í apríl á þessu ári, sem var 4,79 sekúndur. Setti hann um leið nýtt ólympíumet.

Veddriq Leonardo frá Indónesíu vann „stóru“ úrslitaviðureignina um gullverðlaunin með því að klifra á 4,75 sekúndum.

Hafði Leonardo betur gegn Peng Wu frá Kína, sem klifraði á 4,77 sekúndum og gerði sér silfrið að góðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert