Erna Sóley Gunnarsdóttir keppir á sínum fyrstu Ólympíuleikum í París er hún varpar kúlu í kúluvarpskeppni í dag.
Frjálsíþróttakeppni leikanna í París fer fram á Stade de France, sem tekur um 80.000 manns í sæti. Erna brosti breitt þegar talið barst að vellinum glæsilega er hún ræddi við mbl.is.
„Vá hvað hann er flottur. Hann er risastór og tekur tæplega 80.000 manns. Þetta er svakalega flottur völlur og ég get ekki beðið eftir að fá að keppa. Ég horfði á kúluvarp karla og vá hvað það var flott.
Ég komst ekki á völlinn en ég horfði á þetta í sjónvarpinu og fór að pæla í því að ég yrði þarna bráðum. Það er ótrúlega skemmtileg tilfinning. Venjulega er ég spennt að vera aðdáandi en núna fæ ég að vera þarna líka. Það er magnað,“ sagði hún spennt.