Þjálfarinn Þórir Hergeirsson og norska kvennalandsliðið í handbolta eru Ólympíumeistarar 2024 eftir sigur á heimsmeisturum Frakklands, 29:21, í úrslitaleik í Lille í dag. Noregur er nú ríkjandi heims- og ólympíumeistari.
Er um fyrsta ólympíugull Noregs frá því í London árið 2012.
Frakkar byrjuðu mun betur og var staðan 4:1 eftir sex mínútna leik. Norska liðið er ekki þekkt fyrir að gefast upp og var staðan orðin 5:4 fyrir Noregi eftir rúmlega tíu mínútna leik.
Eftir það var mikið jafnræði með liðunum en norska liðið náði tveggja marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks og munaði tveimur mörkum í leikhléi, 15:13.
Stine Oftedal og Henny Reistad skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Noreg í fyrri hálfleik og Pauletta Foppa þrjú fyrir Frakkland. Katrine Lunde varði sjö skot í norska markinu. Laura Glauser varði sex hjá Frökkum.
Norska liðið byrjaði seinni hálfleikinn miklu betur og var staðan 18:14 eftir 40 mínútur og 21:15 þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður.
Munurinn var svo kominn upp í sjö mörk þegar rúmar tíu mínútur voru eftir, 24:17 og var franska liðið ekki líklegt til að jafna eftir það.
Henny Reistad skoraði átta mörk fyrir Noreg, Kari Brattset Dale sex og Stine Oftedal fimm. Katrine Lunde varði 14 skot í markinu. Orlane Kanor skoraði fimm fyrir Frakkland og Tamara Horacek fjögur.