Bandaríkjamaðurinn Brek Christensen, þjálfari kúluvarparans Ernu Sóleyjar Gunnarsdóttur, er mættur á sína fyrstu Ólympíuleika. Hefur hann verið í íslenska hópnum í París undanfarna daga.
Á meðal þeirra sem eru í íslenska teyminu er Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ. Hann var áður einn besti kastþjálfari Evrópu og sérhæfði sig í kringlukasti. Sá bandaríski er afar hrifinn af því að læra af Vésteini.
„Ég var ótrúlega spenntur að hitta Véstein. Ég reyni að læra sem mest af honum og ég er eflaust svolítið þreytandi stundum. Hann er algjör goðsögn í kastgreinum og vonandi verður ferillinn minn eitthvað nálægt því jafn góður og hans,“ sagði hann við mbl.is.