Sex Íslandsmet í Ólympískum lyftingum

Verðlaunahafar í ólympískum lyftingum kvenna. Þuríður Erla í 1.sæti, Saara …
Verðlaunahafar í ólympískum lyftingum kvenna. Þuríður Erla í 1.sæti, Saara Leskinen í 2.sæti og Aníta Líf í 3.sæti. Sportmyndir.is

Sex Íslandsmet voru slegin í Ólympískum lyftingum á WOW Reykjavik International Games í Laugardalshöll í dag. Keppt var í svokallaðri Sinclair stigakeppni þar sem líkamsþyngd keppenda og heildarþyngd sem þeir lyfta reiknast upp í ákveðinn stigafjölda.

Þuríður Erla Helgadóttir (LFK) sýndi það og sannaði í dag að hún er besta lyftingakona landsins. Hún lyfti 5 af 6 lyftum og sigraði með því að snara 84kg og jafnhenta 101kg. Önnur var hin finnska Saara Leskinen sem lyfti sömu þyngdum og Þuríður en hún var aðeins þyngri, Saara átti góða tilraun við 109kg í lokalyftunni. Þriðja varð Aníta Líf Aradóttir (LFG). Birna Aradóttir (LFR) varð fjórða og setti íslandsmet unglinga 20 ára og yngri í jafnendingu þegar hún lyfti 89kg í annarri tilraun.

Í karlakeppninni var keppnin mjög hörð og nokkur ný Íslandsmet féllu. Einar Ingi Jónsson (LFR) sigraði með því að snara nýju Íslandsmeti, 119kg í annarri tilraun, og reyndi við bætingu á meti í þriðju, 121kg, sem hann náði ekki. Hann lyfti síðan 145kg í opnunar lyftunni í jafnhendingu en Einar vigtast aðeins um 70kg. Hann reyndi tvívegis við bætingu á íslandsmetinu 153kg og var nálægt því.

Í öðru sæti nokkuð óvænt var Bjarmi Hreinsson (LFR) sem varð hálfgerður senuþjófur mótsins þegar hann tvíbætti Íslandsmetið í snörun í -94kg flokki karla, fyrst með 135kg og síðan 137kg. Hann var síðan mjög nærri því að falla úr keppni í jafnhöttun þegar hann klikkaði á 155kg og 158kg áður en hann lyfti 158kg sem tryggði honum silfrið og nýtt Íslandsmet í samanlögðum árangri 295kg.

Þriðji varð Jere Johansson frá Finnlandi sem lyfti þyngst 126kg í snörun. Eftir að hafa opnað á 150kg í jafnhöttun átti hann góða tilraun við 154kg sem kviðdómur dæmdi af honum og notaði hann síðustu tilraunina til að reyna að sigra Einar með því að lyfta 157kg sem hann náði ekki.

Birkir Örn Jónsson jafnhenti 152kg sem var nýtt Íslandsmet í -85kg flokki 23 ára og yngri en hann varð í 6.sæti.

Heildarúrslit í ólympískum lyftingum má finna á vef Lyftingasambands Íslands

Verðlaunahafar í ólympískum lyftingum karla. Einar Ingi Jónsson í 1.sæti, …
Verðlaunahafar í ólympískum lyftingum karla. Einar Ingi Jónsson í 1.sæti, Bjarmi Hreinsson í 2.sæti og Jere Johansson í 3.sæti. Sportmyndir.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert