Herra 300 á meðal keppenda

Christopher Sloan eða Herra 300 frá Írlandi á Reykjavíkurleikunum í …
Christopher Sloan eða Herra 300 frá Írlandi á Reykjavíkurleikunum í fyrra. Sportmyndir.is

Í dag verður keppt í keilu á íþróttaleikunum WOW Reykjavik International Games. Keppnin fer fram í Egilshöll og hefst klukkan 17:00. Keilukeppnin er einstaklega sterk í ár en á meðal keppenda eru bæði Evrópu- og heimsmeistarar ásamt bestu keilurum okkar Íslendinga.

Mattias Wetterberg frá Svíþjóð, núverandi Evrópumeistari (ECC 2017), mætir til keppni ásamt Jesper Agerbo frá Danmörku sem varð heimsmeistari einstaklinga 2016. Þá mæta einnig Svíarnir Pontus Anderson, sem er talinn einn efnilegasti keilari Svíþjóðar, og Robert Anderson, sem bæði hefur unnið HM- og EM-titla einstaklinga og liða. Christopher Sloan frá Írlandi sem var í 2. sæti á heimsbikarmóti einstaklinga árið 2016 verður einnig á meðal keppenda. Á Íslandi gengur Sloan undir viðurnefninu Herra 300 en hann hefur náð fullkomnum leikjum (300 stig) í yfir 10 löndum og náði einmitt 300-leik á Reykjavíkurleikunum í fyrra.

Keilukeppni Reykjavíkurleikanna er hluti af forkeppni Heimsbikarmóts AMF á Íslandi (2. umferð af þremur). Sigurvegarinn í forkeppninni fær þátttökurétt á Qubicka AMF World Cup 2018 sem fram fer í lok árs 2018.

Nánari upplýsingar um keilukeppni Reykjavíkurleikanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert