Fetaði í fótspor eiginkonunnar

Jesper Agerbo, sigurvegari í keilu á Reykjavíkurleikunum 2018.
Jesper Agerbo, sigurvegari í keilu á Reykjavíkurleikunum 2018. Keiludeild ÍR

Daninn Jesper Agerbo sigraði í kvöld keilukeppnina WOW Reykjavik International Games. Hann er enginn nýgræðingur í greininni, var heimsmeistari einstaklinga 2016. Í úrslitaviðureigninni mætti hann Robert Anderson frá Svíþjóð og sigraði 2-1. Í fyrsta leik tapaði hann 245-179 en náði síðan fullkomnum leik eða 300 pinnum gegn 245 og loks 268 gegn 232. Segja má að Jesper hafi fetað í fótspor eiginkonu sinnar, Rikke Agerbo, því hún hefur unnið keilukeppni Reykjavíkurleikanna í tvígang, 2016 og 2012.

Jesper lagði Hlyn Örn Ómarsson úr ÍR í undanúrslitum með 237 og 227 gegn 234 og 218 og var Hlynur grátlega nálægt því að knýja fram oddaleik í þeirri viðureign. Robert Anderson lagði Arnar Davíð Jónsson úr KFR í hinum undanúrslitaleiknum í tveim leikjum 257 og 276 gegn 247 og 194.

Efst kvenna á mótinu í ár varð Ástrós Pétursdóttir úr ÍR en hún endaði í 28. sæti forkeppninnar, aðeins 4 sætum frá því að komast í lokakeppnina í dag.

Aldrei hafa fleiri tekið þátt í keilukeppni Reykjavíkurleikanna eða tæplega 70 keilarar. Skorið í mótinu í ár var mjög hátt og meðal annars voru fjórir 300 leikir spilaðir á mótinu auk nokkurra 299 leikja. Er þetta í 10. sinn sem keiludeild ÍR heldur alþjóðlegt mót innan Reykjavíkurleikanna og vex keilukeppnin ár eftir ár.

Verðlaunahafar í keilu á Reykjavíkurleikunum 2018. Frá vinstri: Jesper Agerbo …
Verðlaunahafar í keilu á Reykjavíkurleikunum 2018. Frá vinstri: Jesper Agerbo (1. sæti), Robert Anderson (2. sæti), Arnar Davíð Jónsson (3.-4. sæti) og Hlynur Örn Ómarsson (3.-4. sæti). Keiludeild ÍR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert