„Súrt að vinna ekki á heimavelli“

Aníta og Cherotich nýkomnar yfir marklínuna í Laugardalshöllinni.
Aníta og Cherotich nýkomnar yfir marklínuna í Laugardalshöllinni. mbl.is/Eggert

Emily Cherotich, frá Kenía, tók fram úr Anítu Hinriksdóttur úr ÍR á lokametrum 800 metra hlaupsins á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll á laugardaginn og sigraði á 2:02,39 mínútum.

Cherotich er enginn nýgræðingur og hefur til að mynda náð 2. sæti á meistaramótinu í Kenía þar sem býr eins og íþróttaunnendur þekkja geysileg hlaupaþjóð ef þannig má að orði komast. Hún er reyndur hlaupari og er 32 ára gömul eða tíu árum eldri en Aníta. Meghan Manley frá Bandaríkjunum hafnaði í 3. sæti á 2:04,09 mínútum.

Aníta hljóp á 2:02,68 mínútum en Íslandsmet hennar innanhúss er 2:01,18 mínútur frá því á Reykjavíkurleikunum fyrir ári. Aníta var frá æfingum í rúman mánuð síðasta haust vegna meiðsla í kálfa en virðist vera á réttri leið á nýju ári. Eftir rúman mánuð fer fram heimsmeistaramót innanhúss í Birmingham og þangað stefnir Aníta vitaskuld en hún keppir næst í Þýskalandi á þriðjudaginn. Þá mun hún hlaupa 1.500 metra hlaup.

Hlaupið var mjög spennandi og aldrei munaði miklu á Anítu og Cherotich. Þegar einn hringur var eftir gaf Aníta í og tók forystuna. Cherotich var hins vegar ferskari á lokakaflanum og komst fram úr á lokametrunum.

„Svona og svona,“ sagði Aníta þegar Morgunblaðið spurði hana hvort hún væri ánægð með tímann. „Lágmarkið fyrir HM innanhúss er 2:02 mínútur og ég hefði viljað hlaupa á betri tíma en það en einhvern veginn æxlaðist þetta svona. Cherotich var líka æst og þar af leiðandi var nokkuð um olnbogaskot, rykkingar og baráttu um að vera fremst. Ég þarf ennþá að öðlast meiri reynslu hvað slík atriði varðar en á heildina litið fann ég mig ágætlega. Ég náði að auka hraðann til að reyna að vinna en hélt það ekki alveg út og Cherotich er verðugur andstæðingur. Ég fann að það var orka í stúkunni og aðeins súrt að vinna ekki á heimavelli,“ sagði Aníta sem átt hefur velgengni að fagna á leikunum síðustu árin.

Sjá allt viðtalið við Anítu og meira um Reykjavíkurleikana í íþróttblaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert