Dagný og Matthías settu Íslandsmet

Dagný Edda Þórisdóttir, Keilufélagi Reykjavíkur.
Dagný Edda Þórisdóttir, Keilufélagi Reykjavíkur. Ljósmynd/ÍR keiludeild

Í dag voru spilaðir tveir riðlar í undankeppninni á Reykjavíkurleikunum í keilu. Tvö Íslandsmet voru sett. Dagný Edda Þórisdóttir úr Keilufélagi Reykjavíkur bætti metið í 5 leikjum þegar hún náði samtals 1.167 eða 233,4 í meðaltal. Matthías Leó Sigurðsson úr ÍA setti síðan met í 6 leikjum í 4. flokki pilta með 1.105 eða 184,2 í meðaltal.

Best í dag spilaði sigurvegari Reykjavíkurleikanna 2018 Daninn Jesper Agerbo en hann náði 1.535 pinnum eða 255,8 í meðaltal og er nú í 2. sæti forkeppninnar á eftir Svíanum Mattias Möller sem spilaði í gær 1.575. Gunnar Þór Ásgeirsson úr ÍR er síðan í 3. sætinu með 1.525. Best kvenna í dag spilaði Christina Buch frá Danmörku en hún náði 1.410 pinnum eða 235 í meðaltal.

Forkeppninni lýkur á morgun en þá verður spilaður 5. og síðasti riðill forkeppninnar. Á sunnudag fer síðan fram útsláttarkeppni 32 efstu úr forkeppninni.

Úrslit og allar nánari upplýsingar um mótið má finna á www.ir.is/rig

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert