Skotfimikeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalshöll um helgina. Í dag var keppt með loftskammbyssu en á morgun með loftriffli.
Fjórtán tóku þátt í undankeppni í loftskammbyssu og var skorið mjög gott. Bæði Ásgeir Sigurgeirsson sem var efstur í undankeppninni og Jórunn Harðardóttir sem var í öðru sæti skutu undir ólympíulágmarkinu.
Átta efstu í undankeppninni komust áfram í úrslitakeppni þar sem einn datt út í hverri umferð. Ólympíufarinn Ásgeir Sigurgeirsson stóð uppi sem sigurvegari en í öðru sæti var Kristína Sigurðardóttir. Kristína var í þriðja sæti í undankeppninni en náði að slá Jórunni Harðardóttur út í næstsíðustu umferðinni í úrslitunum og taka silfrið. Jórunn varð því að sætta sig við þriðja sætið þrátt fyrir frábært skor í undankeppninni.