Mikið um að vera á Reykjavíkurleikunum

Skylmingakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram á Laugardalsvelli.
Skylmingakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram á Laugardalsvelli. Ljósmynd/Kjartan Einarsson

Dagskrá Reykjavíkurleikanna er þétt í dag en keppt verður í átta greinum á sjö keppnisstöðum frá klukkan 9:00 til 18:30.  

Í Laugardalshöllinni fer fram keppni í dag í skotfimi og fimleikum. Á Laugardalsvelli er keppt í skylmingum og í Skautahöllinni í Laugardal fer fram keppni í listhlaupi á skautum. Í TBR húsinu er keppt í badminton unglinga og taekwondokeppni leikanna fer fram í Víkinni við Traðarland. Í Egilshöllinni fer fram keppni í keilu og í húsnæði Skvassfélags Reykjavíkur á Stórhöfða er keppt í skvassi.

Yfirlit yfir dagskrá seinni keppnishelgi Reykjavíkurleikanna má finna á rig.is en miðasala er á tix.is.

Keila

Keilukeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Egilshöll. Í dag verður spilaður síðasti riðill forkeppninnar klukkan 9-12 en á morgun sunnudag verður keppt til úrslita með útsláttarfyrirkomulagi. 34 erlendir keppendur frá sex löndum taka þátt í mótinu, meðal annars þrjár atvinnukonur í keilu og sigurvegarinn frá því í fyrra, Jesper Agerbo frá Danmörku. Mattias Möller frá Svíþjóð er sem stendur í 1.sæti forkeppninnar. Nánari upplýsingar má finna hér.

Skotfimi

Í skotfimikeppni Reykjavíkurleikanna verður keppt í loftskammbyssu klukkan 9-14 í dag en loftriffli klukkan 9-12 á morgun. Keppnin fer fram á annarri hæð Laugardalshallar. Keppt verður í blönduðum flokki þar sem allir keppendur skjóta 60 skotum. Efstu 8 keppendurnir í hvorri grein keppa síðan til úrslita í útsláttarkeppni. Hér er hægt að fylgjast með gangi mála í beinni útsendingu:

LOFTSKAMMBYSSA laugardaginn 2.feb 2019 kl.09:00

LOFTRIFFILL sunnudaginn 3.feb 2019 kl. 09:00

Badminton

Þessa helgina verður keppt í badminton unglinga á Reykjavíkurleikunum í TBR húsinu en um síðustu helgi var alþjóðlegt fullorðinsmót á dagskránni. Um 150 leikmenn taka þátt í mótinu frá Íslandi og Færeyjum. Erlendu keppendurnir eru rúmlega 50 talsins en þeim fylgir annar eins fjöldi af þjálfurum, fararstjórum og áhorfendum. Smellið hér er hægt að sjá leikjaröð dagsins í badminton.

Taekwondo

Keppni í taekwondo fer fram í Víkinni, íþróttahúsi Víkings við Traðarland, klukkan 10-17 í dag. Keppt verður í bæði bardaga og formum. Fyrir hádegi er keppt í flokkum barna og unglinga en eftir hádegi í fullorðinsflokkum. Nánari dagskrá má finna hér.   

Skylmingar

Skylmingakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Skylmingamiðstöð Íslands á Laugardalsvelli klukkan 10:30-16:30 í dag. Í dag verður keppt í barna og unglingaflokkum en á morgun í flokki fullorðinna. Sjö erlendir gestir frá sex löndum taka þátt í skylmingakeppninni. Nánari upplýsingar má finna hér.

Skvass

Keppni í skvassi fer fram í húsnæði Skvassfélags Reykjavíkur á Stórhöfða í dag og hefst klukkan 11. Reiknað er með að undanúrslit hefjist klukkan 14 og úrslitaleikir klukkan 15. Flestir af bestu spilurum landsins taka þátt.

Fimleikar

Fimleikakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalshöll í dag. Keppt verður í kvennaflokki klukkan 12:40-14:20 og kvenna- og karlaflokki klukkan 16:00-18:20. 25 erlendir keppendur frá fjórum löndum taka þátt í mótinu þar á meðal mjög öflugir keppendur frá Rússlandi. Nánari upplýsingar má finna hér.

Listskautar

Listskautakeppnin fer fram í  Skautahöllinni í Laugardal. Um 80 erlendir gestir frá 18 löndum eru komnir til landsins til að taka þátt. Keppni stendur yfir frá klukkan 13:00-18:30 í dag. Nánari dagskrá og upplýsingar má finna vef Skautasambandsins.

Reykjavíkurleikarnir hófust fimmtudaginn 24.janúar og lýkur á morgun 3.febrúar. Þetta er í 12. sinn sem leikarnir fara fram og er keppt í 18 íþróttagreinum. Rúmlega sjö hundruð erlendir gestir af 45 mismundandi þjóðernum komu til landsins til að taka þátt í þessari miklu íþróttahátíð með flestu af besta íþróttafólki okkar Íslendinga.

mbl.is