Eysteinn og Sissal best í badminton

Um helgina var keppt í badminton unglinga á Reykjavíkurleikunum í TBR-húsinu en um síðustu helgi var alþjóðlegt fullorðinsmót á dagskránni. Alls voru 146 keppendur skráðir til þátttöku á unglingamótinu, þar af rúmlega 50 frá Færeyjum. Með keppendunum frá Færeyjum kom hópur af þjálfurum, fararstjórum og foreldrum og var heildarfjöldi hópsins því vel yfir 100 manns. Færeyingar hafa verið duglegir að taka þátt í þessu móti undanfarin ár og setja skemmtilegan svip á mótið.

Keppt var í nokkrum flokkum unglinga en í elsta flokknum, U19, voru þau Eysteinn Högnason frá TBR og Sissal Thomsen frá Færeyjum sigursælust. Þau sigruðu bæði í einliðaleik en Eysteinn sigraði einnig í tvíliðaleik með Bjarna Þór Sverrissyni, TBR, og varð í öðru sæti í tvenndarleik með Unu Hrund Örvar úr BH. Sissal Thomsen sigraði í tvenndarleik með Jónasi Djurhuus en varð í öðru sæti í tvíliðaleik með Miriam í Grótinum. Halla María Gústafsdóttir og Una Hrund Örvar úr BH sigruðu í tvíliðaleiknum.

Þrír keppendur urðu þrefaldir meistarar á mótinu þ.e. sigruðu í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik. Það voru þau Máni Berg Ellertsson úr ÍA í U13 flokknum, Gabríel Ingi Helgason úr BH í U15 flokknum og Júlíanna Karítas Jóhannsdóttir í U17 flokknum.

Alls voru spilaðir 332 leikir um helgina, en auk keppenda frá TBR og Færeyjum voru leikmenn frá Aftureldingu, BH, Hamri, ÍA, TBS og UMF Þór í Þorlákshöfn.

Nánari úrslit í badminton unglinga má finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert