Keppt í sex greinum á síðasta degi RIG

Listskautar eru ein af þeim 18 greinum sem keppt er …
Listskautar eru ein af þeim 18 greinum sem keppt er í á Reykjavíkurleikunum 2019. Ljósmynd/Kjartan Einarsson

12. Reykjavíkurleikarnir hófust fimmtudaginn 24. janúar og lýkur í dag 3. febrúar. Rúmlega sjö hundruð erlendir gestir af 45 mismundandi þjóðernum komu til landsins til að taka þátt í þessari miklu íþróttahátíð með flestu af besta íþróttafólki okkar Íslendinga. Í dag á lokadegi leikanna er keppni í sex greinum á dagskrá ásamt lokahátíð í Laugardalshöll í kvöld.

Keila

Úrslitakeppnin í keilu fer fram Keiluhöllinni Egilshöll í dag og hefst klukkan 9. Í úrslitakeppninni munu 32 bestu úr forkeppninni sem staðið hefur yfir síðan á fimmtudag keppast um sigurinn. Lista yfir þá sem komust í úrslit má finna hér. Undanúrslit og úrslit verða spiluð klukkan 16-17:30 í beinni útsendingu á RÚV. Nánari upplýsingar má finna á vef Keiludeildar ÍR.

Skotfimi

Í skotfimikeppni Reykjavíkurleikanna verður keppt með loftriffli í dag klukkan 9-12. Keppnin fer fram á annarri hæð Laugardalshallar. Keppt verður í blönduðum flokki þar sem allir keppendur skjóta 60 skotum. Efstu 8 keppendurnir keppa síðan til úrslita í útsláttarkeppni. Í gær var loftskammbyssukeppni og var sigurvegari Ásgeir Sigurgeirsson en Kristína Sigurðardóttir var í öðru sæti og setti nýtt Íslandsmet í kvennaflokki. 

Badminton

Þessa helgina er keppt í badminton unglinga á Reykjavíkurleikunum í TBR-húsinu en um síðustu helgi var alþjóðlegt fullorðinsmót á dagskránni. Um 150 leikmenn taka þátt í mótinu frá Íslandi og Færeyjum. Erlendu keppendurnir eru rúmlega 50 talsins en þeim fylgir annar eins fjöldi af þjálfurum, fararstjórum og áhorfendum. Í dag verða spiluð undanúrslit og úrslit í badminton klukkan 9-16. Smellið hér til að sjá leikjaröð dagsins.

Skylmingar

Skylmingakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Skylmingamiðstöð Íslands á Laugardalsvelli klukkan 10:30-16:00 í dag. Keppni í U17 hefst klukkan 10:30 en í fullorðinsflokki klukkan 13:00. Sjö erlendir gestir frá fimm löndum taka þátt í skylmingakeppninni. Nánari upplýsingar má finna hér.

Listskautar

Listskautakeppnin fer fram í  Skautahöllinni í Laugardal. Um 80 erlendir gestir frá 18 löndum eru komnir til landsins til að taka þátt. Keppni stendur yfir frá klukkan 11:30-15:05 í dag. Nánari dagskrá og upplýsingar má finna vef Skautasambandsins.

Frjálsíþróttir

Flest af besta frjálsíþróttafólki landsins ásamt feiknasterkum erlendum keppendum mætast í Laugardalshöll í dag klukkan 12:30-15:00. Erlendir keppendur eru 31 talsins frá 7 löndum. Sýnt verður frá mótinu í beinni útsendingu á RÚV klukkan 13-15. Dagskrá, keppendalista o.fl. áhugavert má finna á vef Frjálsíþróttasambands Íslands.

Lokahátíð Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalshöll í kvöld og hefst á hátíðarkvöldverði klukkan 19. Að honum loknum er meðal annars á dagskrá dans- og íþróttasýning ásamt verðlaunaafhendingu fyrir besta árangurinn í hverri íþróttagrein. Hátíðinni lýkur á söng Eyþórs Inga Gunnlaugssonar. 

Nánari upplýsingar um Reykjavíkurleikana má finna á rig.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert