Kristín Valdís byrjaði vel

Listskautakeppni Reykjavíkurleikanna er nú í fullum gangi í Skautahöllinni í Laugardal. Í kvennaflokki eru níu keppendur þar af þrír Íslendingar, Eva Dögg Sæmundsdóttir, Skautakona ársins 2018, Margrét Sól Torfadóttir, Íslandsmeistari 2018 í kvennaflokki, og Kristín Valdís Örnólfsdóttir, sem er að taka þátt í fyrsta skipti í fullorðinsflokki.

Kristín Valdís byrjaði fyrsta mótið sitt í fullorðinsflokki vel í gær en hún var í 5. sæti og efst Íslendinga eftir stutta prógramið. Í efsta sæti í flokknum eftir fyrri daginn var Aiza Mambekova frá Kasakstan en hún er reyndur keppandi, tók þátt í Vetrarólympíuleikunum í fyrra og náði hún áttunda sætinu á Asísku vetrarleikunum (Asian Winter Games) í Sapporo 2017. Önnur var Morgan Flood frá Aserbaídsjan, en hún sigraði í kvennaflokki á Reykjavíkurleikunum í fyrra og í unglingaflokki árið 2017. Í þriðja sæti eftir fyrri daginn var svo Tanja Odermatt frá Sviss, í fjórða sæti Marianne Stalen frá Noregi og Kristín Valdís í fimmta sæti eins og áður sagði.

Keppendur í kvennaflokki gera frjálsu æfingarnar sínar klukkan 14:00-15:05 í dag og er hægt að fylgjast með í beinni útsendingu hér að neðan.

mbl.is