Badmintonmóti seinkað vegna veðurs

Keppni í badminton fer fram í TBR-húsunum.
Keppni í badminton fer fram í TBR-húsunum. ÍBR/Kjartan Einarsson

Nánast allar flugsamgöngur hafa legið niðri á landinu í dag og hefur það mikil áhrif á badmintonmót Reykjavíkurleikanna, RSL Iceland International. Alls hafa 22 leikmenn boðað forföll vegna veðurs og hefur verið ákveðið að seinka mótinu um 3 klukkustundir á morgun til að þeir sem ná flugi í fyrramálið geti tekið þátt.

Badmintonmótið hófst í TBR-húsinu í morgun klukkan 9 en í dag var spiluð undankeppni í einliðaleik. Á morgun átti keppni að hefjast klukkan 9 en hefur verið frestað til 12.

Kjartan Ágúst Valsson, framkvæmdastjóri Badmintonsambandsins, sagði í samtali við mbl.is að venjulega séu leikmenn sektaðir af Badminton Europe um 150 dollara ef þeir afboða sig í mót með svona stuttum fyrirvara. Hann sagðist þó vonast til að þessum aðstæðum yrði sýndur skilningur en það ætti eftir að koma í ljós eftir helgina. 

Hefur það mikil áhrif á mótið að 22 af 115 erlendum keppendum afboði sig með svona stuttum fyrirvara? „Já það er auðvitað mjög leiðinlegt þegar gefa þarf svona marga leiki og getur líka haft þau áhrif að sumir leikmenn fái töluvert léttari leið í úrslitin en aðrir,“ sagði Kjartan.

Hér má sjá yfirlit yfir leikina sem verða spilaðir í TBR-húsinu á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert