Júlían einbeitir sér að EM

Júlían J. K. Jóhannsson.
Júlían J. K. Jóhannsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Júlían J.K. Jóhannsson, kraftlyftingamaður úr Ármanni og íþróttamaður ársins 2019, getur ekki verið með á Reykjavíkurleikunum vegna meiðsla. Fyrir vikið verður næsta mót hjá honum ekki fyrr en í byrjun maí. 

„Meiðslin eru í rauninni ekki alvarleg en ég þurfti því miður að draga mig úr keppni. Reykjavíkurleikarnir er orðið stærsta og skemmtilegasta mótið sem mér gefst kostur á að keppa á á Íslandi. Þeir eru einnig orðnir stærsta fjölgreinamótið á Íslandi. Þess vegna er súrt að missa af þessu en ég mæti og hvet áfram allt þetta frábæra íþróttafólk sem keppir á leikunum hvort sem það er í kraftlyftingum eða öðrum greinum. Ég reyni því að skemmta mér öðruvísi en þegar ég er að keppa,“ sagði Júlían þegar mbl.is ræddi við hann í dag að lokinni setningu RIG í Laugardalnum. 

„Ég mun keppa næst á Evrópumeistaramótinu í Danmörku í byrjun maí. Ég einbeiti mér að því en á þessu ári reyni ég að tryggja mér sæti á Heimsleikum sem fara fram á næsta ári. Evrópumeistaramótið verður liður í því.“

Nú eru rúmar þrjár vikur liðnar frá því að Júlían hlaut sæmdarheitið íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna. Hefur hann fundið fyrir miklum viðbrögðum? 

„Já ég hef fengið rosalega góð viðbrögð. Þetta hefur verið svolítið magnað. Þremur dögum eftir útnefninguna dreymdi mig að ég hefði verið kjörinn íþróttamaður ársins. Ég vaknaði mjög glaður þann morguninn en þegar ég rankaði við mér þá áttaði ég mig á því að það var meira en bara draumur. Ég var raunverulega kjörinn. Þetta skiptir máli því þetta er afar jákvætt bæði fyrir mig en einnig fyrir mína íþrótt. Mjög margir hafa rætt þetta við mig og mér finnst frábært að bera þennan titil,“ sagði Júlían í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert