Reykjavíkurleikarnir hefjast í dag

Keppni í badminton fer fram í TBR-húsunum við Gnoðarvog.
Keppni í badminton fer fram í TBR-húsunum við Gnoðarvog. ÍBR/Ólafur Þórisson

Reykjavíkurleikarnir eru árleg íþróttahátíð sem fer fram í 13. sinn dagana 23. janúar til 2. febrúar. Keppt verður í 23 íþróttagreinum næstu tvær helgar þar sem reiknað er með þátttöku hátt í 1.000 erlendra gesta ásamt flestu af besta íþróttafólki okkar Íslendinga. Keppnin fer að mestu fram í Laugardalnum og nágrenni hans en einnig í Egilshöll, á Skólavörðustíg og víðar.

Keppnisgreinar leikanna í ár eru mjög fjölbreyttar og hafa aldrei verið fleiri eða 23 talsins. Á dagskránni eru akstursíþróttir, bæði í hermum og brautarakstri, badminton, borðtennis, crossfit, dans, frjálsíþróttir, brekkusprettur á hjóli, enduro-hjólakeppni, júdó, karate, keila, klifur, kraftlyftingar, listskautar, ólympískar lyftingar, pílukast, rafíþróttir, skotfimi, skvass, sund, taekwondo og þríþraut.

Í dag eru tveir viðburðir á dagskrá leikanna, badmintonkeppni í TBR-húsinu og ráðstefna um jafnrétti barna og unglinga í íþróttum í Laugardalshöll. Badmintonkeppnin stendur yfir frá klukkan 9:00 til 19:00 í dag. Yfirlit yfir leiki dagsins má finna hér. Ráðstefnan í Laugardalshöll verður frá 14:00 til 16:00. Uppbókað er á ráðstefnuna en hægt verður að fylgjast með í beinni útsendingu á Youtube-rás Reykjavíkurleikanna.

Á vef Reykjavíkurleikanna rig.is má finna dagskrá og nánari upplýsingar.

mbl.is