Eitthvað fyrir alla á dagskránni

Fjölbreytileiki íþrótta fær sannarlega að njóta sín á Reykjavíkurleikunum sem fram fara nú um helgina og um næstu helgi. Keppt er í 23 íþróttagreinum og ætti því allt íþróttaáhugafólk að finna eitthvað við sitt hæfi.

En það er ekki bara hægt að horfa á greinarnar 23 næstu daga því í svokölluðu Fun Park Reykjavíkurleikanna í anddyri Laugardalshallar geta gestir og gangandi fengið prófa ýmsar íþróttagreinar sem keppt er í á leikunum, t.d. borðtennis, lyftingar, keilu og dans. Einnig verður hægt prófa sýndarveruleika (VR) og taka myndir á skemmtilegum myndabás. Fun Park verður opið laugardag og sunnudag báðar keppnishelgarnar klukkan 11:30-15:00.

Í dag verður keppt í níu keppnisgreinum frá 9 til 21 á Reykjavíkurleikunum og er hér stutt samantekt um dagskrá dagsins.  

Badminton

Keppnin fer fram í TBR-húsunum og verður spilað frá klukkan 9 til 19. Þátttakendur eru um 150 talsins, þar af 114 erlendir frá 32 mismunandi þjóðlöndum. Yfirlit yfir leiki dagsins má finna á tournamentsoftware.com og streymi hér á Youtube

Borðtennis

Keppnin fer fram í TBR-húsunum og verður spilað frá 15 til 18. Keppni í karlaflokki hefst klukkan 15 og kvennaflokki klukkan 16. Fjórir erlendir keppendur frá Ungverjalandi, Serbíu, Litháen og Lettlandi taka þátt ásamt besta íslenska borðtennisfólkinu.

Dans

Keppnin fer fram í Laugardalshöll klukkan 9-17 og 19:45-21:00. Í kvöld verður dansað til úrslita á svokölluðu galakvöldi þar sem áhorfendur mæta prúðbúnir og borða glæsilegan þriggja rétta kvöldverð áður en keppni hefst. Úrslitin í kvöld verða í beinni útsendingu á RÚV. Dagskrá má finna hér og keppendalista hér.

Enduro-hjólreiðar

Þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í enduro á leikunum. Ræst verður af stað frá bílastæðinu við Perluna klukkan 17:00 og búist við að keppni standi yfir til klukkan 19. Hjólaðar verða 4-5 leiðir og keppast þátttakendur um að vera sem fljótastir með þær, samanlagður tími ræður úrslitum. Keppendur munu hjóla með ljóskastara og má því búast við miklu sjónarspili í rökkrinu. Áhorfendur eru einnig hvattir til að mæta með ljós.

Hermiakstur

Akstursíþróttir eru í fyrsta sinn hluti af Reykjavíkurleikunum í ár. Um helgina verður undankeppni í hermiakstri í GT Akademíunni í Ármúla klukkan 17-19 en úrslitin verða um næstu helgi í Laugardalshöll.

Júdó

Feiknasterkir erlendir keppendur ásamt flestu af besta júdófólki landins taka þátt í júdókeppninni í Laugardalshöll í dag. Forkeppni verður klukkan 9-12 og síðan úrslitaviðureignir klukkan 14-15:30. Sýnt verður beint frá úrslitakeppninni á RÚV. Hér á jsi.is má finna niðurröðun keppninnar. 

Listskautar

Keppnin í listskautum hófst í Skautahöllinni í Laugardal og stendur yfir fram á sunnudag. Minnstu munaði að ekki næðist að koma dómurum mótsins til landsins vegna samgöngutruflana en allt fór vel að lokum. Hér á iceskate.is má finna yfirlit yfir keppendur, dagskrá, streymi o.fl.

Pílukast

Pílukast er ný grein á Reykjavíkurleikunum í ár en keppnin fer fram á Tangarhöfða 2. Keppni í karlaflokki hefst klukkan 12 og kvennaflokki klukkan 16 og er áætlað að keppni ljúki um klukkan 20. Hér má finna lista yfir skráða keppendur.

Sund

Sundkeppnin fór vel af stað í Laugardalslaug í gær en þá náðu 5 íslenskir sundmenn lágmörkum fyrir stórmót. Um 300 keppendur taka þátt, þar af rúmlega 100 erlendir. Í dag verða syntar undanrásir klukkan 9:15-12 og síðan úrslitasund klukkan 15:30-16:30. Úrslitasundið verður í beinni útsendingu á RÚV.  Hér má finna lifandi úrslit, keppendalista og streymi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert