Lokadagur Reykjavíkurleikanna í dag

Keila er ein af þeim íþróttagreinum sem keppt er í …
Keila er ein af þeim íþróttagreinum sem keppt er í á Reykjavíkurleikunum í dag. ÍBR/Ólafur Þórisson

Þrettándu Reykjavíkurleikarnir hófust 23. janúar en þeim lýkur í dag 2. febrúar. Keppt verður í sex íþróttagreinum í dag, badminton unglinga, frjálsíþróttum, keilu, rafíþróttum, skotfimi og taekwondo. Í kvöld klukkan 19-21 verður svo lokahátíð í Laugardalshöll þar sem besta íþróttafólkið í þeim greinum sem keppt var í um helgina fær viðurkenningar.

Fun Park Reykjavíkurleikanna í anddyri Laugardalshallar verður opið í dag frá 11:30-15:00. Þar geta gestir og gangandi fengið að prófa ýmsar íþróttagreinar t.d. borðtennis, pílu, lyftingar, parkour o.fl. Einnig verður hægt að prófa sýndarveruleika (VR) og taka myndir á skemmtilegum myndabás. Tilvalið fyrir foreldra að kíkja þarna við með börn sín og kynna þeim fjölbreytileika íþrótta.

Helstu upplýsingar um keppnisgreinar dagsins:

Badminton unglinga

Keppni í badminton unglinga hefst klukkan 9:00 í TBR-húsinu og er áætlað að keppni standi yfir til klukkan 16. Um 160 keppendur taka þátt í mótinu, þar af um 50 frá Færeyjum. Hér á tournamentsoftware.com er hægt að fylgjast með framgangi mótsins.

Frjálsíþróttir

Frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna er sterkasta frjálsíþróttamótið hér á landi ár hvert þar sem fremsta frjálsíþróttafólk okkar Íslendinga mætir sterkum erlendum keppendum. Alls eru 109 keppendur á mótinu og þar af 31 erlendur keppandi frá sex löndum. Hér á fri.is má finna gott yfirlit yfir keppendur á mótinu ásamt leikskrá og slóð á lifandi úrslit. Keppni hefst klukkan 16 og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Keila

Undankeppninni í keilu lauk í gær en þar var keppt um 24 sæti í úrslitakeppninni sem hefst í dag. Skorið í undankeppninni hefur aldrei verið svona hátt í mótinu þau 12 ár sem það hefur verið haldið en keppendur þurftu að fá 230 í meðaltal til að komast í undanúrslitin. Undanúrslit í keilu hefjast klukkan 9 í Keiluhöllinni í Egilshöll og úrslit klukkan 14:30. Hér á rigbowling.is má sjá lokaniðurstöður forkeppninnar.

Rafíþróttir

Lið KR sigraði í FIFA 20 keppninni á rafíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna í gær og Dusty í League of Legends. Í dag verður keppt í Counter Strike þar sem Fylkir mætir Tropadeleet. Keppni fer fram í Háskólabíó og hefst klukkan 12:30. Nánari upplýsingar um rafíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna má finna á Facebook-viðburði keppninnar.

Skotfimi

Keppni í skotfimi á Reykjavíkurleikunum fer fram í Laugardalshöll. Keppt var með loftskammbyssu í gær og sigraði Ívar Ragnarsson. Í dag verður keppt með loftriffli og mun keppni standa yfir frá 9:00 til 12:00. Keppendalista og nánari upplýsingar má finna hér á Facebook-viðburði mótsins.

Taekwondo

Taekwondokeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Ármannsheimilinu í Laugardalnum í dag. Keppt verður í formum (poomsae) klukkan 9-12 og bardaga klukkan 12-17. Upplýsingar um dagskrá, keppendur og flokka má finna á Facebook-viðburði mótsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert