Allt besta frjálsíþróttafólkið verður með 

Reykjavíkurleikarnir hefjast á sunnudaginn.
Reykjavíkurleikarnir hefjast á sunnudaginn.

Frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Laugardalshöllinni á sunnudaginn, en mikil vinna hefur farið í að skipuleggja keppnina. 

Margir erlendir keppendur sýndu mikinn áhuga að koma til landsins og keppa við okkar besta íþróttafólk, en vegna kórónuveirunnar verður mótið aðeins fyrir íslenska keppendur. 

Hástökkskeppnin verður spennandi þetta árið þar sem Kristján Viggó Sigfinnsson og Eva María Baldursdóttir eru að reyna við lágmark á HM U20 ára, bæði eru aðeins einum sentimetra frá lágmarkinu. Þau hafa þó bæði tryggt sér farseðilinn á EM U20 í ár. 

Spretthlaupararnir Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson keppa í bæði 60 m og 200 m hlaupunum. Þau freista þess bæði að ná lágmarki á EM innanhúss í 60 m hlaupinu. 

Guðni Valur kringlukastari er að stefna á sína aðra Ólympíuleika þetta árið, hann mætir í kúluvarpskeppnina en hann vann mótið í fyrra og ætlar sér að gera betur.  

Reiknað er með hörkukeppni í langstökki kvenna þar sem Hildigunnur Þórarinsdóttir og Birna Kristín Kristjánsdóttir hafa byrjað keppnistímabilið vel. 

Frjálsíþróttakeppnin fer fram á sunnudaginn, hægt er að finna frekari upplýsingar á facebook-viðburði frjálsíþróttamótsins. Mótið verður svo sýnt á RÚV klukkan 16.00 á sunnudaginn 7. febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert