Eina Íslandsmetið sem ég á eftir

Guðbjörg Jóna brosmild eftir 60 metra hlaupið í dag.
Guðbjörg Jóna brosmild eftir 60 metra hlaupið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, besti spretthlaupari landsins, ræddi við mbl.is eftir að hún kom fyrst í mark í 60 og 200 metra hlaupum á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll í dag. Guðbjörg var nokkuð frá sínu besta en í ljósi æfinga- og keppnisbanns á síðasta ári er það skiljanlegt. 

„Maður á að vera ánægður með að fá að keppa miðað við hvernig ástandið er búið að vera. Miðað við hvað er stutt síðan við máttum byrja að æfa var þetta mjög fínt. Ég mæti á æfingu aftur á morgun og fer að vinna í því sem þarf að laga. Maður er ágætlega sáttur þótt 200 hafi ekki verið nægilega gott. Það er alltaf hægt að líta á björtu hliðarnar,“ sagði Guðbjörg. 

Tæpar 30 mínútur liðu á milli hlaupanna tveggja hjá Guðbjörgu, en hún segir það ekki endilega slæman hlut. „Ég er þannig hlaupari að það skiptir engu máli fyrir mig hvort það sé stutt á milli hlaupa eða ekki. Ég hljóp þrjú hlaup áður en ég varð Evrópumeistari í 100 metra hlaupi svo það skiptir engu máli fyrir mig.“

Gaman þegar fólk horfir á mig keppa

Guðbjörg viðurkennir hins vegar að áhorfendaleysi hafi sett strik í reikninginn, þar sem hún þrífst í mikilli stemningu. 

„Það var góð tónlist í gangi og maður reyndi að gera sitt besta en ég er þannig íþróttamaður að ég fíla rosalega mikið að hafa áhorfendur og mér finnst gaman þegar fólk horfir á mig keppa,“ sagði Guðbjörg. 

Það verður nóg að gera hjá Guðbjörgu á árinu og hún ætlar sér stóra hluti. „Vonandi kemst ég inn á EM fullorðinna í mars. Eftir innimótin fer ég að einbeita mér að EM U23 ára. Vonandi næ ég í verðlaun þar, það væri sjúkt. Svo horfir maður alltaf á Ólympíuleikana.“

Guðbjörg er handhafi allra Íslandsmeta í 60, 100 og 200 metra hlaupum nema 200 metra hlaupi innanhúss. Þar á Silja Úlfarsdóttir metið, 23,79 sekúndur. Besti tími Guðbjargar er 23,98 sekúndur. 

„Það er alltaf markmið að ná Íslandsmetum og að bæta sig. Það er eina Íslandsmetið sem ég á eftir. Ég á metið í 60 metrunum með Tiönu og svo á ég úti í 100 og 200 og það væri gullið að ná þessu líka. Það kemur einhvern tímann,“ sagði Guðbjörg Jóna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert