Þuríður og Emil stigahæst í ólympískum lyftingum

Þuríður Erla Helgadóttir lyftir á Reykjavíkurleikunum.
Þuríður Erla Helgadóttir lyftir á Reykjavíkurleikunum. Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Í gær fór fram æsispennandi keppni í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum en mótið fór  fram í Laugardalshöllinni.

Á mótinu tóku þátt 5 konur og 6 karlar, en að þessu sinni voru aðeins íslenskir keppendur.

Þuríður sigursæl

Í kvennaflokki var lyftingakona ársins, Þuríður Erla Helgadóttir, hlutskörpust með 256,77 stig tölvert fyrir ofan aðra keppendur. Þuríður snaraði 83 kg og jafnhenti 105 kg, ásamt því að eiga tilraun við 109 kg sem hefði verið bæting á hennar eigin Íslandsmeti um eitt kg. Það fór ekki upp í þetta skiptið en ætti ekki að vera langt í að slá Íslandsmetið.

Í öðru sæti var Heiðrún Stella Þorvaldsdóttir með 224,98 stig með 78 kg í snörun og 87 kg í jafnhendingu. Þar á eftir í þriðja sæti var yngsti keppandi mótsins Úlfhildur Arna Unnarsdóttir með 210,23 stig, hún snaraði 75 kg og jafnhenti 96 kg. Glæsilegur árangur.

Úrslit í kvennaflokki

  1. Þuríður Erla Helgadóttir, 256,77 stig
  2. Heiðrún Stella Þorvaldsdóttir, 224,98 stig
  3. Úlfhildur Arna Unnarsdóttir, 210,23 stig

Karlakeppnin jafnari

Fyrsta sætið tók Emil Ragnar Ægisson með 326,07 stig þar sem hann snaraði 123 kg og hvorki meira né minna en 156 kg í jafnhendingu. Í öðru sæti var Gerald Brimir Einarsson með 317,88 stig en hann snaraði 118 kg og jafnhenti 151 kg, glæsilegt hjá honum. Í þriðja sæti var Daníel Róbertsson með 314,89 stig. Daníel snaraði 120 kg og jafnhenti 140 kg.

Brynjar Logi Halldórsson byrjaði sterkur og setti íslandsmet í -89kg unglinga með 123kg, en náði ekki gildri lyftu í jafnhendingu og náði því ekki samanlögðum árangri.

Stjarna mótsins er þó án efa aldursforseti keppenda, 57 ára ungi Gísli Kristjánsson, sem keppir vanalega í -109 kg flokki en vigtaðist rétt rúm 110 kg og keppti því léttur í yfirþungavigtarflokki. Gísli átti þyngstu snörun dagsins þegar að hann lyfti 125 kg, sem er 3 kg yfir heimsmeti í hans aldursflokki í yfirþungavigtinni, og 7 kg yfir núverandi heimsmeti í -109 kg flokki!

Úrslit í karlaflokki

  1. Emil Ragnar Ægisson, 326,07 stig
  2. Gerald Brimir Einarsson, 317,88 stig
  3. Daníel Róbertsson, 314,89 stig

Hægt er að horfa á keppnina á heimasíðu Reykjavíkurleikanna, RIG.Is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert