Íslenskir skautarar tilbúnir fyrir Reykjavíkurleikana

Aldís Kara Bergsdóttir keppir á Reykjavíkurleikunum.
Aldís Kara Bergsdóttir keppir á Reykjavíkurleikunum. Ljósmynd/Frida Berge

Óvenju margir eru skráðir til leiks á skautamót Reykjavíkurleikanna en það er hluti af gildum mótum Alþjóðaskautasambandsins.

Skautarar geta geta þar náð lágmarks stigum inn á alþjóðleg meistaramót eins og heimsmeistaramót.

Það eru tuttugu og fjórir skautarar skráðir í unglingaflokki sem gera tilraun að ná inn á heimsmeistaramót unglinga sem haldið verður í mars. Keppendurnir koma frá Noregi, Finnlandi, Írlandi, Argentínu, Mexikó og Hollandi auk Íslendinganna þriggja sem skráðir eru.

Júlía Rós Viðarsdóttir er þar fremst meðal jafningja en hún varð áttunda á Norðurlandamótinu sem lauk nýlega, sem er með bestu úrslitum sem Ísland hefur fengið í þeim flokki. Auk hennar kepptu einnig Ida Vamnes og Oda Havgar frá Noregi en þær eru einnig væntanlegar á RIG um næstu helgi.

Í fullorðinsflokki hefur Ísland skráðan einn keppanda en það er Aldís Kara Bergsdóttir sem hefur verið að skrásetja nýja kafla í íslensku skautasöguna undanfarin tvö ár. Hún var einnig að koma af Norðurlandamótinu þar sem hún lauk keppni í níunda sæti og setti enn eitt stigametið. Bætti hún stigamet Íslendings í fullorðinsflokki á NM um næstum 30 stig og atti þar kappi við Linneu Kolstad Kilsand og Fridu Berge. Þær eru tvær af fremstu skauturum Noregs og eru einnig skráðir keppendur á RIG í ár.

Frida Berge hefur áður keppt á RIG og var það árið 2020 í unglingaflokki en kemur hún nú aftur sem keppandi í fullorðinsflokki. Aldís Kara og Linnea voru einnig keppendur á Evrópumeistaramótinu í Tallinn fyrr í mánuðinum og verður því gaman að sjá hvernig úrslitin verða í fullorðinsflokki kvenna á RIG 2022.

Listskautakeppnin fer fram um helgina og byrjar á föstudag, miðasölu má nálgast hér og hægt verður að horfa á streymi á heimasíðu RIG.IS. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert