Lukka og Birgir Óli sigruðu í klifri

Lukka Mörk Sigurðardóttir sigraði í kvennaflokki.
Lukka Mörk Sigurðardóttir sigraði í kvennaflokki. Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Lukka Mörk Sigurðardóttir sigraði í kvennaflokki í klifurkeppni Reykjavíkurleikanna í ár en hún varð í öðru sæti 2021.

Lukka hefur einbeitt sér að klifurferlinum og atvinnumennsku í íþróttinni og það er að skila árangri. Inga Aarhus sem tók annað sætið kom frá Noregi til að keppa á RIG. Hún er fyrsti erlendi keppandinn til að heimsækja landið til að taka þátt í Reykjavíkurleikunum í þessari grein.

Einnig kom danski landsliðsklifrarinn Theis Elfenberg til landsins en hann sá um að setja upp leiðir fyrir mótið ásamt úrvalsliði leiðasmiða frá Klifurfélagi Reykjavíkur. Á keppnisdeginum voru settar upp sex mótsleiðir, mikil vinna er bak við hverja leið þar sem leiðasmiðirnir prófa hverja hreyfingu margoft og breyta leiðum eftir prófanir til að þær séu nógu erfiðar en ekki of erfiðar.

Í karlaflokki sigraði Birgir Óli Snorrason. Hann er tiltölulega nýr í afreksliði Klifurhússins þar sem hann slóst í hópinn fyrir aðeins tveimur árum, en hann hefur sýnt miklar framfarir síðustu ár. Í öðru sæti var Valdimar Björnsson, klifurkempa Klifurhússins, en hann hefur unnið ótal Íslands- og bikarmeistaratitla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert