Helgi og Þórdís sigurðu í Enduro-hjólakeppninni

Helgi Berg Friðþjófsson sigraði í Enduro á Reykjavíkurleikunum.
Helgi Berg Friðþjófsson sigraði í Enduro á Reykjavíkurleikunum.

Endurókeppni Reykjavíkurleikanna fór fram í blíðskaparveðri og nýföllnum snjó í Öskjuhlíðinni í dag. Úrval af fremstu fjallahjólurum landsins voru þar mætt og kepptu í fjórum sérleiðum. Aðstæður voru nokkuð krefjandi, annars vegar nokkur hálka og svo hafði snjó feykt í skafla sem voru mjög erfiðir yfirferðar.

Í karlaflokki var það Helgi Berg Friðþjófsson úr Brettafélagi Hafnarfjarðar, sem fór best af stað og náði langbesta tímanum á fyrstu sérleið. Hann lenti þó í vandræðum á sérleið tvö er hann sprengdi dekk. Hann lét það þó ekki á sig fá og með miklu harðfylgi vann hann upp tapaðan tíma og fór svo að lokum að hann hafði sigur á tímanum 6 mínútum 53 sekúndum og 533 sekúndubrotum. 

Það voru svo þeir Börkur Smári úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur og Þórir Bjarni Traustason úr Brettafélagi Hafnarfjarðar sem börðust um annað sætið. Skiptust þeir á að ná betri tímum á sérleiðunum en svo fór að lokum að Börkur Smári náði öðru sætinu á tímanum 7:08.947 en Þórir Traust var bara rétt rúmri hálfri sekúndu á eftir honum á tímanum 7:09.500. 

Þórdís Björk kom sá og sigraði

Hjá konunum var það Þórdís Björk Georgsdóttir úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur sem sigraði á tímanum 8:07.340. Fór hún best allra af stað og þó hún hafi aðeins gefið eftir á síðustu sérleið vann hún nokkuð öruggan 13 sekúndna sigur.

Í öðru sæti varð Sól Snorradóttir, einnig  úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur. Hún fór ekki vel af stað í fyrstu ferð, en sótti svo hart að Þórdísi allti til loka og náði samanlögðum tíma 8:21.628. Í þriðja sæti varð Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir á tímanum 8:53.925. 

Þórdís Björk Georgsdóttir sigraði í Enduro á Reykjavíkurleikunum.
Þórdís Björk Georgsdóttir sigraði í Enduro á Reykjavíkurleikunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert