Júlía fékk gull og Aldís silfur

Júlía Rós Viðarsdóttir hafnaði í efsta sæti.
Júlía Rós Viðarsdóttir hafnaði í efsta sæti. Ljósmynd/Skautasamband Íslands

Það var mikið um að vera í Skautahöllinni í Laugardal á Reykjavíkurleikunum um helgina, þar sem alþjóðleg keppni á listskautum fór fram. 

Talsverður fjöldi keppenda var kominn yfir hafið til Íslands til að freista þess að ná lágmörkum inn á alþjóðleg stórmót en RIG er hluti af gildum mótum Alþjóðaskautasambandsins (ISU) og geta skautarar sem keppa þar náð lágmörkum inn á alþjóðleg úrslitamót eins og heimsmeistaramót.

Keppnin hófst á föstudag með keppni í yngri flokkum og stuttu prógrami hjá Advanced Novice Girls (efsta stigi stúlkna) og lauk í dag, sunnudag. Keppni yngri flokka fór vel fram og var gaman fyrir íslensku skautarana að keppa á móti erlendum skauturum, en margir þeirra hafa aldrei keppt á alþjóðlegu móti áður.

Í Advanced Novice (efstastig stúlkna) sigraði Pernille With frá Noregi með yfirburðum en hún fékk samtals 90.40 stig fyrir bæði prógröm. Þar varð í öðru sæti Roos Harkema frá Hollandi með 78.54 stig og í þriðja varð Celina Gretland frá Noregi með 77.36 stig. Í fjórða sæti varð svo Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir frá Íslandi með 74.57 stig. Þær Sædís Heba Guðmundsdóttir og Dharma Elísabet Tómasdóttir áttu einnig sérstaklega góðan dag og lauk Sædís Heba keppni með 70.13 stig í sjöunda sæti og Dharma Elísabet í fimmtánda sæti með 52.28 sæti.

Í Junior Women (unglingaflokkur kvenna) voru 18 skautarar  mættir til leiks, en eitthvað hafði saxast á hópinn vegna Covid. Allir voru skautararnir saman komnir til að reyna við lágmörkin á heimsmeistaramót Unglinga sem fer fram í mars.

Aldís Kara Bergsdóttir varð önnur.
Aldís Kara Bergsdóttir varð önnur. Ljósmynd/Skautasamband Íslands

Það var mikil eftirvænting í höllinni eftir íslensku stúlkunum. Lena Rut Ásgeirsdóttir átti stórgóðan dag í frjálsu prógrammi og bætti sitt persónulega met til muna. Samanlögð stig hennar á mótinu voru 80.83 stig sem skilaði henni 14. sætinu. Júlía Sylvía Gunnarsdóttir var annar íslenski skautarinn í keppnisflokknum en henni hlekktist á í byrjun frjálsa prógrammsins sem setti örlítið svip á frammistöðuna. Stigin voru samt sem áður góð því Júlía Sylvía gaf allt í og klárari með glæsibrag, fékk 55.46 stig fyrir frjálsa prógrammið og 94.74 samanlagt sem skilaði henni sjötta sætinu að lokum.

Júlía Rós Viðarsdóttir hafði verið í þriðja sætinu frá deginum áður hlekktist örlítið á í byrjun prógrammsins en skilaði restinni af fullum krafti og uppskar 71.14 stig og ljóst að hún yrði á palli en bíða þurfti og sjá í hvaða sæti hún myndi lenda. Tvær norskar stúlkur skautuðu á eftir henni en gekk ekki sem skildi og stóð Júlía Rós því uppi sem sigurvegari dagsins með samtals 112.80 stig. Önnur var Ida Eline Vamnes og sú þriðja Oda Havgar Tonnesen báðar frá Noregi.

Edward Appleby frá Bretlandi var eini keppandinn í Junior Men (unglingaflokkur karla) á þessu móti. Hann kom á RIG 2020 og er því mótinu góðkunnur. Appleby sýndi góð tilþrif á ísnum m.a. tvo þrefalda axela. Edward fékk fyrir prógrammið 98.88 stig og 162.57 stig samanlagt.

Í Senior Men (fullorðinsflokkur karla) var Lauri Lankila frá Finnlandi eini keppandinn. Lankila hafði ekki gengið sem skyldi í stutta prógraminu en lagði allt sitt í það frjálsa. Stigin fyrir daginn voru 100.50 og heildarniðurstaðan 151.85 stig. 

Það var Senior Women (fullorðinsflokkur kvenna) sem kláruðu mótið. Þar kepptu sterkir skautarar frá Noregi, Finnlandi og Íslandi en Aldís Kara Bergsdóttir keppir í þessum flokki. Aldís Kara er á sínu þriðja móti á jafn mörgum vikum sem er gífurlega erfitt. Eftir stutta prógrammið hafði hún verið í þriðja sæti en á sunnudag átti hún betri dag og kláraði erfiðustu elementin sín glæsilega. Stigin fyrir frjálsa prógrammið urðu 78.92 og í heildina 117.31 og 2. sætið hennar. Á eftir henni kom svo Frida Thuridotter Berge frá Noregi. Hún átti betri dag í stutta prógramminu heldur en í frjálsa og uppskar 115.97 heildarstig og hafnaði í þriðja sæti. Sigurvegarinn var svo sú sem hafði trónað á toppnum eftir fyrri daginn, Petra Palmio frá Finnlandi. Petra sýndi afar sterka takta, góð stökk og yfirburðar skautafærni. Fyrir frammistöðuna sína fékk hún 141.72 stig í heildina. 

Það var því finnski þjóðsöngurinn sem fékk að hljóma tvisvar í dag í báðum senior flokkum og breski og sá íslenski í junior flokkum og má segja að það hafi varla verið þurr þráður á nokkrum hvarmi í höllinni þegar sá íslenski glumdi í fullri hátíðarútgáfu. Reykjavíkurleikunum á listskautum árið 2022 er nú lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert