Tólf keppa í úrslitum í klifri

Frá undankeppni RIG í klifri
Frá undankeppni RIG í klifri Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Mikil stemmning var í Klifurhúsinu í gær þegar 45 keppendur tóku þátt í undankeppni Reykjavíkurleikanna. Hópur af norskum ungmennum komu einnig til landsins til að keppa. 

Mikil vinna fer í að setja upp klifurkeppni þar sem finna þarf upp ótal nýjar klifurþrautir sem keppendur leysa á staðnum án þess að hafa barið þær augum áður.

Keppendur höfðu fjórar mínútur til að leysa hverja þraut, en alls voru átta leiðir í tveimur flokkum. Leiðasmíðateymi Klifurfélags Reykjavíkur sá um uppsetninguna fyrir mótið og fékk auk þess til sín franskan leiðasmið sem hefur verið að setja upp keppnisleiðir í Kanada.

Keppnin er í senn líkamleg og andleg, þar sem hún reynir á útsjónarsemi þátttakenda frammi fyrir nýjum þrautum, sem og líkamlega færni. 

Sex karlar og sex konur keppa í úrslitum

Konur:

Elise Frantzen Olsen, Noregi
Anne Ackre, Noregi
Vera Bakker, Þýskalandi
Agnes Matthildur Helgadóttir Folkmann, Íslandi
Gabríela Einarsdóttir, Íslandi
Sigrid Randen-Hatløy, Noregi

Karlar:

Guðmundur Freyr Arnarson, Íslandi
Ólafur Bjarni Ragnars, Íslandi
Óðinn Arnar Freysson, Íslandi
Birgir Óli Snorrason, Íslandi
Sólon Thorberg Helgason, Íslandi
Adrian Markowski, Póllandi

Úrslitunum verður sjónvarpað á RÚV mánudaginn 30. janúar klukkan 19:20. Þá er einnig hægt að horfa á úrslitin í streymi á RIG.IS/LIVE

Klifuríþróttin hefur verið í örum vexti út um allan heim síðustu ár og var í fyrsta sinn hluti af Ólympíuleikunum sumarið 2021 þegar keppt var í klifurþríþraut; leiðsluklifri, grjótglímu og hraðaklifri.

Síðustu ár hafa klifursalir sprottið upp á flestum landshornum hér á landi, sá nýjasti á Hjalteyri í Eyjafirði.

Árið 2021 var Klifursamband Íslands formlega stofnað innan ÍSÍ og er sambandið orðið hluti af Alþjóðlega klifuríþróttasambandinu (IFSC) og munu íslenskir keppendur því geta keppt á stórmótum erlendis frá og með árinu 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert