Boðaðar til keppni á elleftu stundu

Lyfta númer tvö í jafnhendingu, 101 kg. Allar þyngdirnar í …
Lyfta númer tvö í jafnhendingu, 101 kg. Allar þyngdirnar í jafnhendingunni flugu upp í höndum Úlfhildar en í snörun þeytti hún 80 kg aftur fyrir sig og fékk ógilt. Stöngin var einfaldlega of létt. Lokalyftan þar, 82 kg, flaug hins vegar á sinn stað. Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson

„Ég átti ekki að vera að keppa á þessu móti heldur Eygló [Fanney Sturludóttir] en hún er meidd og þurfti að draga sig úr keppni, ég fékk að vita í síðustu viku að ég ætti að keppa,“ segir Úlfhildur Arna Unnarsdóttir í samtali við mbl.is eftir keppni í ólympískum lyftingum á Reykjavíkurleikunum í dag þar sem íslenska liðið hafnaði í öðru sæti á eftir liði Noregs sem bar sigurorð úr býtum en eingöngu var um liðakeppni að ræða.

Úlfhildur gerði sér þó lítið fyrir og varð efst þeirra tíu kvenna sem kepptu í dag fyrir hönd fimm Norðurlandaþjóða en Svíar sendu ekki lið. Hlaut Úlfhildur, yngst kvenkyns keppenda, 237,173 Sinclair-stig en næst á eftir henni varð hin norska Julia Jordanger með 233,223 stig og þriðja Maibrit Reynheim Petersen frá Færeyjum með 223,063.

Blikur á lofti

Sjaldan er ein báran stök því Þuríður Erla Helgadóttir, sem einnig var í liði Íslands og hefur getið sér gott orð í crossfit auk ólympískra lyftinga, boðaði forföll með minnsta mögulega fyrirvara. „Ég fékk bara SMS frá henni klukkan hálfsjö í morgun og fór náttúrulega bara í panikk, búin að missa liðsfélaga minn og þá vorum við bara þrjú, það hefði ekki gengið,“ segir Úlfhildur frá.

„Mér leið ótrúlega vel og upphitunin gekk vel en þar …
„Mér leið ótrúlega vel og upphitunin gekk vel en þar sem ég var að keppa í liði gat ég ekki tekið alveg eins mikla sénsa og þegar ég er að keppa ein,“ segir Úlfhildur sem átti stórleik í ólympískum í dag. Ljósmynd/Hafsteinn Snær Þorsteinsson

Liðið fullskipaðist þó á ný á allra síðustu stundu þegar Birta Líf Þórarinsdóttir hljóp undir bagga og tók sæti Þuríðar í íslenska liðinu. Þrátt fyrir skamman fyrirvara smeygði Birta sér í sjötta sætið af kvenkeppendunum tíu með 213,061 stig. Af tíu karlkyns keppendum varð Brynjar Logi Halldórsson í þriðja sæti með 350,131 stig og Alex Daði Reynisson í sjötta sæti með 319,795 stig.

Engin verðlaun voru veitt einstaklingum þar sem um liðakeppni var að ræða og urðu úrslit þessi:

  1. Noregur
  2. Ísland
  3. Finnland
  4. Danmörk
  5. Færeyjar

„Svo hefst keppnin. Mér leið ótrúlega vel og upphitunin gekk vel en þar sem ég var að keppa í liði gat ég ekki tekið alveg eins mikla sénsa og þegar ég er að keppa ein,“ segir Úlfhildur af mótinu. Hafi hún því ákveðið að byrja af öryggi í fyrri grein ólympískra lyftinga, snörun, og lyfti þar 75 kg.

Geggjað flott hjá Birtu

„Ég fer svo bak við, það var töluverð bið á milli lyfta þar sem við vorum allar frekar jafnar og í svipuðum þyngdum. Þar lyfti ég 78 létt og fer þá í 80 í næstu lyftu á pallinum en missi stöngina aftur fyrir mig, hún var bara of létt. Þannig að ég ákvað að hoppa upp í 82 kg til að ná fyrsta sætinu í snörun og það gekk,“ segir Úlfhildur sem á 87 kg í snörun en var þá einum þyngdarflokki ofar svo 82 kg eru tveggja kg bæting í núverandi flokki hennar.

Úlfhildur opnaði í 98 kg í jafnhendingu, hinni keppnisgreininni, fór þaðan í 101 og að lokum í 103 kg sem allt fór upp í dag.

„Birtu gekk vel miðað við aðstæður, hún stóð sig rosalega vel miðað við fyrirvarann sem hún fékk, tók 81 kg í snörun og 98 í clean and jerk [jafnhendingu] sem er mjög flott hjá henni. Hún var á erfiðri crossfit-æfingu í gær og alveg búin á því svo þetta var geggjað flott hjá henni,“ segir Úlfhildur um stöllu sína eftir harða keppni við Norðmenn á Reykjavíkurleikunum í dag.

Íslenska liðið svartklætt lengst til vinstri, Úlfhildur, Alex Daði Reynisson, …
Íslenska liðið svartklætt lengst til vinstri, Úlfhildur, Alex Daði Reynisson, Birta Líf Þórarinsdóttir og Brynjar Logi Halldórsson. Myndina tekur Helga Hlín, móðir Úlfhildar og einnig margverðlaunaður meistari í ólympískum lyftingum. Ljósmynd/Helga Hlín Hákonardóttir
mbl.is