Íslandsmetið stóð ekki lengi

Keilukeppni RIG stendur yfir í sex daga.
Keilukeppni RIG stendur yfir í sex daga. Ljósmynd/RIG

Þá er þremur fyrstu riðlunum lokið í Reykjavíkurleikunum í keilu en alls verða spilaðir níu riðlar á mótinu sem heldur áfram alla vikuna og lýkur í Egilshöll á fimmtudagskvöldið.

Í svokölluðum „Early bird-riðli“, sem spilaður var um helgina og gefur efsta karli og konu öruggt sæti í 32 manna úrslitum, spiluðu best Gunnar Þór Ásgeirsson með 1.426 pinna og Nanna Hólm Davíðsdóttir með 1.207 pinna.

Í sama riðli setti Matthías Leó Sigurðsson glæsilegt Íslandsmet í flokki 15-16 ára í tveimur, þremur, fjórum, fimm og sex leikjum.

Íslandsmet Matthíasar í tveimur leikjum stóð þó ekki lengi því í gær bætti Ásgeir Karl Gústafsson um betur í fyrsta formlega riðlinum og spilaði 557 í tveimur leikjum eða 278,5 að meðaltali í leik.

Í sama riðli tók Hlynur Örn Ómarsson, sigurvegari Reykjavíkurleikanna í keilu árið 2019, forystuna í mótinu af Gunnari með einum pinna.

Í annan riðil mætti fyrsti erlendi spilarinn í ár, Adrian Kindervaag, norskur landsliðsmaður í keilu. Hann spilaði sig upp í 11. sæti samanlagt með 1.303 pinna sem er ólíklegt til að duga til að komast áfram í ár en líklegt er að niðurskurðurinn verði í kringum 1.370 sem er meðaltal upp á 228 pinna í leik.

Best spilaði Gunnar Þór Ásgeirsson í dag með 1.370 pinna svo ljóst er að Hlynur Örn heldur enn forystunni.

Í dag mætir fjöldinn allur af erlendum spilurum til leiks, þar á meðal atvinnukonan Verity Crawley og heimsmeistararnir Jesper Agerbo og Robert Anderson, svo reikna má með því að niðurskurðartalan rjúki upp á næstu dögum en í dag stendur hún í 1.192 pinnum.

Úrslitin í keilunni fara svo fram fimmtudaginn 2. febrúar klukkan 19.30 og verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Allar upplýsingar um keilukeppnina má finna hér og þá er einnig hægt að horfa á streymi á RIG.IS/LIVE.

mbl.is