Heimsmeistari keppir í Höllinni á sunnudaginn

Chase Ealey á verðlaunapallinum á HM í fyrra.
Chase Ealey á verðlaunapallinum á HM í fyrra. AFP/Ben Stansall

Chase Ealey frá Bandaríkjunum, heimsmeistari í kúluvarpi kvenna, verður á meðal keppenda á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna sem fram fer í Laugardalshöllinni á sunnudaginn.

Ealey, sem er 28 ára gömul, sigraði í greininni á HM í Eugene á síðasta ári, fyrst bandarískra kvenna, þegar hún kastaði 20,49 metra og þá fék hún silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu innanhúss í Belgrad fyrr á árinu 2022 þegar hún kastaði 20,21 metra. Ealey sigraði einnig í greininni á Demantamótaröðinni á síðasta ári.

Þá keppir Naomi Sedney frá Hollandi í 60 og 200 metra hlaupum og verður fróðlegt að fylgjast með keppni hennar við Íslandsmethafann Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur í báðum greinum. Naomi varð Evrópumeistari með sveit Hollands í 4x100 metra boðhlaupi árið 2016.

Ole Jakob Solbu frá Noregi keppir í 800 metra hlaupi karla en hann þykir mikið efni og varð fjórði á Evrópumóti U20 ára í Tallinn fyrir tveimur árum.

Auk Guðbjargar Jónu verður margt af besta frjálsíþróttafólki Íslands með á mótinu, eins og Kolbeinn Höður Gunnarsson, Irma Gunnarsdóttir, Guðni Valur Guðnason, Tiana Ósk Whitworth og Daníel Ingi Egilsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert