Úrslitin í keilunni ráðast í dag og kvöld

Úrslitin í keilunni ráðast endanlega í kvöld.
Úrslitin í keilunni ráðast endanlega í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eftir langa og stranga forkeppni í keilu á Reykjavíkurleikunum er ljóst hvaða keppendur mætast í úrslitum í Keiluhöllinni í Egilshöll í kvöld.

Forkeppnin hófst 28. janúar og hefur staðið yfir í sex daga, en nú er ljóst hvernig keppendur raðast fyrir lokakeppnina. Fyrirkomulag mótsins er þannig að eftir forkeppni fara 24 efstu keilararnir beint í úrslitakeppnina ásamt átta aukasætum og halda þeir sætaröð sinni í gegnum öll skref úrslitakeppninnar.

Í gærkvöldi fór fyrsta umferð úrslitakeppninnar fram þegar keppendur kepptu í sextán neðstu sætunum. Þetta raðast þannig að lægsta sætið mætir því hæsta í hverri umferð. Vinna þarf tvo keiluleiki til að komast áfram í næsta skref úrslitakeppninnar. Margir spennandi leikir voru í fyrstu umferðinni og var hart barist. Nokkur óvænt úrslit urðu á meðan aðrir leikir fóru eftir bókinni frægu.

Keppnin í dag hefst kl. 14.30 þegar næstu átta keilararnir koma inn og mæta sigurvegurum viðureigna gærkvöldsins. Aftur er sama fyrirkomulag, vinna þarf tvo leiki til að komast áfram og getur því hver viðureign farið í alls þrjá keiluleiki.

Klukkan 16.30 koma loks efstu átta keilararnir inn og leika við sigurvegara fyrri viðureigna. Þegar því er lokið er komið að undanúrslitum þegar aðeins átta keilarar eru eftir en þeir berjast um það að komast í úrslitin sem verða í beinni útsendingu á Stöð2 Sport kl. 19.30 í kvöld.

Þar keppa þeir fjórir sem eftir eru en þá breytist fyrirkomulagið, leikinn er einn leikur og dettur sá út sem lægsta skorið hefur. Aftur verður leikið og þá um það að komast í sjálfan úrslitaleik mótsins og um titilinn Meistari Reykjavíkurleikanna 2023.

Skorið í forkeppninni í ár hefur aldrei verið hærra. Efst eftir forkeppnina er enska atvinnukonan Verity Crawley en hún keppir á atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum. Besta sex leikja sería hennar sem tryggði henni efsta sætið var upp á 1.539 pinna eða 256,5 í meðaltal leiks.

Einar Már Björnsson úr ÍR spilaði svakalega seríu í lokariðli forkeppninnar þegar hann lék á 1.534 pinnum eða 255,7 í meðaltali leiks. Náði hann meðal annars fullkomnum leik í fjórða leik riðilsins þegar hann náði 300 sem er hæsta skor sem hægt er að ná í einum leik.

Efst íslenskra kvenna í forkeppninni varð Marika Katarina E. Lönnroth úr Keilufélagi Reykjavíkur en hún endaði í 39. sæti með 1.287 pinna eða 214,5 í meðaltali leiks. Það dugði henni ekki til að komast í lokakeppnina en Nanna Hólm Davíðsdóttir úr ÍR fékk sæti í lokakeppninni í gegnum bónussæti. Vann hún sína viðureign í gærkvöldi í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og er komin áfram í næstu umferð sem fer fram eins og segir kl. 14.30 í dag.

Allar upplýsingar um mótið, stöður í riðlum og úrslitum má sjá á www.rigbowling.is

Hægt verður að fylgjast með beinu streymi frá úrslitadeginum í dag á www.rig.is/live

Bein útsending frá úrslitum mótsins verður á Stöð2 Sport kl. 19.15 í kvöld.

Frá undankeppninni í Egilshöll.
Frá undankeppninni í Egilshöll. Ljósmynd/KLÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert