Norðurlandamót RIG á Listskautum í Skautahöllinni í Laugardalnum

Ida Karonen er efst í Junior Novice.
Ida Karonen er efst í Junior Novice. Ljósmynd/Giuseppe Bodrone

Um helgina fer fram Norðurlandamót í listskautum í Skautahöllinni í Laugardal, en mótið er haldið á Íslandi fimmta hvert ár og er að þessu sinni hluti af Reykjavíkurleikunum.

Margir góðir norrænir skautarar eru komnir til landsins til að etja kappi við rjómann af íslensku skautafólki.

Íslenska liðið er skipað fimm skauturum úr Advanced novice, efsta stigi stúlkna, og Junior women, unglingaflokki kvenna.

Íslensku stúlkurnar sem keppa eru:

  • Indíana Rós Ómarsdóttir keppir í Advanced novice
  • Sædís Heba Guðmundsdóttir keppir í Advanced novice
  • Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir keppir í Junior women
  • Lena Rut Ásgeirsdóttir keppir í Junior women
  • Júlía Sylvía Gunnarsdóttir keppir í Advanced novice flokki og Junior flokki

Keppni hófst í gær með stuttu prógrammi í keppnisflokkunum Advanced novice girls og boys. Sextán keppendur voru skráðir í stúlknaflokkinum en sex drengir í drengjaflokknum. Þessi hluti mótsins er eingöngu opinn Norðurlandaþjóðunum og átti Ísland tvo keppendur hjá stúlkunum sem báðar stóðu sig með prýði. 

Það voru mörg glæsileg prógrömm sem litu dagsins ljós, en staðan eftir stutta prógrammið er á þá leið að Darja Trubitson frá Finnlandi er í fyrsta sæti með 41.23 stig. Amanda Eskelin, einnig frá Finnlandi, er í öðru sæti með 39.99 stig og Leona Gerbara frá Svíþjóð er þriðja með 38.20 stig.

Íslensku stúlkurnar Sædís Heba Guðmundsdóttir og Indíana Rós Ómarsdóttir eru svo með 23.44 og 19.36 stig í 15. og 16. sæti.

Keppni í Junior women er stærsti hópurinn sem keppir á listskautamótum á Íslandi en allar eru þær að reyna við lágmörk á heimsmeistaramót unglinga sem haldið verður í mars. Ísland átti þrjá keppendur í þessum flokki.

Þetta voru þær Júlía Sylvía Gunnarsdóttir sem átti stórgóðan dag og situr í 6. sæti með 46.64 stig, Lena Rut Ásgeirsdóttir sem er í í 24. sæti með 31.69 stig og Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir í 25. sæti með 23.17 stig.

Í dag keppa Advanced novice með frjálst prógramm og ráðast þá úrslit þeirra flokka en að auki hefst keppni í Junior men. Dagskrá í höllinni byrjar með krafti klukkan 12, en íslensku stelpurnar Indíana Rós og Sædís Heba keppa í Advance novice og byrja þær klukkan 14.

Frekari upplýsingar um Norðurlandamót RIG í listskautum má finna hér. Einnig er hægt að horfa á listskautakeppnina á RIG.IS/LIVE gegn vægu gjaldi.  

mbl.is