Níu íþróttagreinar á RIG í dag

Júlía Sylvía Gunnarsdóttir að keppa á RIG 2023
Júlía Sylvía Gunnarsdóttir að keppa á RIG 2023 Ljósmynd/ÍSS

Mikið er um að vera á Reykjavíkurleikunum í dag þar sem fjölbreyttar íþróttagreinar fara fram, allt frá dansi yfir í pílu og rallýakstur.

Dans

Danskeppnin hófst í Laugardalshöll í morgun klukkan 9 og stendur til 17:30, en dagurinn hófst með barnadönsum og endar í flottum keppnisdönsurum.

Efstu tvö íslensku pörin sem keppa í dag munu svo keppa í liðakeppni milli Norðurlandanna í Laugardalshöll í kvöld, en keppnin hefst klukkan 20.10. Í fyrra vann Danmörk liðakeppnina en nú verður spurning hvort Ísland nái að endurheimta efsta sætið.  

Keppnin er sýnd í beinni útsendingu á RÚV frá klukkan 20.10 til 21.

Pílukast

Pílukast keppni RIG hófst í gær með undanriðlum en það voru 90 keppendur skráðir til leiks.

Vegna mikillar þátttöku fór undankeppnin fram á tveimur stöðum. Útsláttarkeppnin í báðum flokkum fer fram í dag í Bullseye á Snorrabraut, en fyrstu leikir í útslætti hefjast klukkan 10.30.

Undanúrslitaleikir og úrslitaleikir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport um kvöldið og hefst útsendingin klukkan 19.15.

Sigurvegarar í bæði karla- og kvennakeppnum munu fá boð á WDF World Masters þar sem leikmenn geta unnið sér sæti á WDF World Championship.

Listskautar

Úrslit unglingaflokkanna munu ráðast í dag á Norðurlandamótinu í listskautum þegar bæði karla- og kvennaflokkur munu keppa með frjálsu æfingarnar. Lena Rut Ásgeirsdóttir og Júlía Sylvía Gunnarsdóttir, sem situr í 6. sæti með 46.64 stig, munu stíga á ísinn. Í dag hefst einnig keppni í fullorðinsflokkum með skylduæfingum.

Keppnin hefst á hádegi í dag og stendur til klukkan 21 í kvöld.

Það er því langur dagur fram undan í Skautahöllinni í Laugardal. Hægt er að sjá dagskrána hér og horfa á streymi á RIG.IS/LIVE.

Akstursíþróttir

Rallý er ný grein á Reykjavíkurleikunum, en rallý er ein elsta grein akstursíþrótta sem keppt hefur verið í á Íslandi. Akstur í rallý skiptist upp í ferjuleiðir og sérleiðir.

Keppnin hefst klukkan 10.30 á Kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. Frekari upplýsingar um keppnina og fyrirkomulagið má finna hér.

Borðtennis

Borðtennishluti Reykjavíkurleikanna fer fram í TBR í dag. Karlaflokkurinn hefur leik klukkan 15, en tveir franskir keppendur taka þátt og verður áhugavert að sjá hvernig íslensku leikmönnunum vegnar á móti þeim. Kvennakeppnin hefst klukkan 16.

Rafíþróttir

Í dag fer fram keppni í Super Smash Bros milli klukkan 13 til 16. Keppnin er netviðburður en hægt er að mæta í Arena og fylgjast með. Þá er hægt að horfa á rafíþróttastreymið hér

Skotfimi

Skotfimi keppni RIG fer fram í Egilshöll dagana 4. - 5. febrúar. Klukkan 10 í dag hefst keppni í loftskammbyssu, hægt er að fylgjast með hér

Skylmingar

Skylmingarkeppni RIG fer fram hjá Laugardalsvelli dagana 4. - 5. febrúar frá klukkan 10 til 15.

Badminton unglinga

Badminton keppni unglinga fer fram í TBR-húsinu dagana 4. - 5. febrúar. Margir leikmenn frá Færeyjum mæta til leiks. Keppni hófst klukkan 9 í morgun og verður leikið fram eftir degi.    

Allt um Reykjavíkurleikana og dagskrána má finna hér, en Reykjavíkurleikunum lýkur á morgun 5. febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert