Sé fram á að geta komist í úrslit EM

Kolbeinn Höður Gunnarsson stórbætti eigið Íslandsmet í dag.
Kolbeinn Höður Gunnarsson stórbætti eigið Íslandsmet í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Kolbeinn Höður Gunnarsson, spretthlaupari úr FH, kveðst aldrei hafa verið í betra formi en um þessar mundir. Hann stórbætti eigið Íslandsmet í 200 metra hlaupi innanhús á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna í dag.

„Tilfinningin er frábær, það er alltaf gott að finna að maður er að taka skref fram á við. Upplifunin er þannig að það er meira inni.

Maður hugsar alltaf lengra fram í tímann þannig að á næsta ári verður maður vonandi kominn við hlið þeirra hröðustu.

Þetta er allt á jákvæðri uppleið. Ég er bara mjög sáttur,“ sagði Kolbeinn í samtali við mbl.is eftir að hann kom í mark á 21,03 sekúndum í dag.

Viss um að slá eigið met í 60 metrunum

Hann tók einnig þátt í 60 metra hlaupi karla, kom þar einnig fyrstur í mark og hjó ansi nærri eigin Íslandsmeti, sem hann setti á Nike-mótaröðinni í Kaplakrika í síðasta mánuði.

Met hans í greininni er 6,68 sekúndur en í dag kom hann í mark á 6,72 sekúndum.

„Ég er búinn að vera röngu megin við 6,70 í nokkur skipti núna en ég er alltaf að hitta á sömu tímana þannig að ég veit að þetta er þarna inni. Þetta er því bara tímaspursmál. Ekki hvort heldur hvenær maður hittir á rétta hlaupið og allt gangi upp.

Við erum eiginlega bara að bíða eftir því. Því fleiri hlaup og því betri keppnir sem ég kemst í þá er ég 110 prósent viss um að það gangi eftir,“ sagði Kolbeinn um 60 metra hlaupið.

„Ég vil ekki fara of langt fram úr mér en ég sé fram á að geta komist í úrslit á Evrópumeistaramótinu. Ég ætla allavega ekki að segja að það sé ekki hægt,“ bætti hann við.

Skilar sér vonandi í ólympíulágmarki

Er Kolbeinn var spurður að því hvort líkamlega formið sem hann væri nú í væri það besta á ferlinum stóð ekki á svörum.

„Algjörlega. Þetta er svona í fyrsta sinn sem ég fer „all-in“ í þessari íþrótt, ef svo má segja. Ég finn bara, afsakið orðbragðið, helvíti mikinn mun á því að geta einbeitt mér alfarið að þessu.

Núna er bara að halda þessum dampi áfram og vonandi skilar það sér í ennþá betri bætingum fram á næsta ár og ólympíulágmarki,“ sagði Kolbeinn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert