Álíka góð byrjun í Blöndu og 2010

Júlía Þorvaldsdóttir hampar hrygnu sem hún veiddi í Hræsvelg í ...
Júlía Þorvaldsdóttir hampar hrygnu sem hún veiddi í Hræsvelg í Norðurá. Átta stanga holl, sem lauk veiðum í gær, fékk 20 laxa. mbl.is/Golli

Um hádegi í gær höfðu veiðst 87 laxar í Norðurá sem er tíu fiskum meira en á sama tíma í fyrra. Átta stanga holl náði 20 löxum við erfiðar aðstæður.

„Takan var mjög treg allan tímann. En þessi hópur hefur veitt í ánni í allmörg ár á þessum tíma og við höfum aldrei sér svona mikinn lax í ánni og jafn vel dreifðan og núna,“ sagði Kjartan Þorbjörnsson, einn veiðimannanna, í gær. Kjartan og Júlía kona hans lönduðu engu að síður fjórum stórum hrygnum, 73 til 80 cm löngum.

Veiði hófst á neðsta svæði Blöndu 5. júní síðastliðinn og hafa rúmlega 60 laxar þegar verið færðir til bókar, nánast allt stórlaxar. Stefán Sigurðsson sölustjóri hjá Lax-á er afar ánægður með þessa byrjun.

Sex laxar veiddust í opnunarhollinu í Þverá en það lauk veiðum um hádegi í gær; fyrstu þrír laxarnir veiddust í Kaðalstaðahyl en algengt er að þar sé gengið að fyrstu löxum sumarsins. Veiðimenn sáu annars talsvert af laxi í ánni en hann tók illa í skjannasólinni í Borgarfirði. Veiði hófst í efri hluta árinnar, í Kjarrá, seinnipartinn í gær.

Sjá nánar um veiðiskapinn í Morgunblaðinu í dag.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is