Vikuleg samantekt á laxveiðinni

Valgarð Ragnarsson með 102 cm hrygnu sem hann veiddi í ...
Valgarð Ragnarsson með 102 cm hrygnu sem hann veiddi í Neðri Dæli í Víðidalsá í vikunni á fluguna Night Hawk. anglingiq.com

Vikuleg samantekt Landssambands veiðifélaga á veiði í laxveiðiám á landinu birtist í dag og eins og áður er Ytri-Rangá langefst á listanum. Þar er veiði afar góð þessa daganna og gaf síðasta vika rúmlega þúsund laxa. Tók veiðin mikinn kipp eftir hádegið síðastliðinn sunnudag þegar heimilt var að byrja að veiða á maðk og spún til viðbótar við fluguna sem fram að því hafði eingöngu verið leyfilegt agn. 

Miðfjarðará er komin yfir 3000 laxa markið og Þverá/Kjarrá yfir 2000 laxa. Uppröðun á 10 efstu ánum hefur breyst lítillega frá því í síðustu viku og kemur Laxá á Ásum inn í fyrsta sinn í sumar og styttist í að hún sigli yfir 1000 laxa.

Líða fer að lokunum í nokkrum veiðiám og ekki ólíklegt að einhverjar lokatölur birtist í næstu viku í samantekt landssambandsins.

Vikulistinn yfir 10 efstu árnar lítur þannig út:

  1. Ytri-Rangá 5.588 laxar - vikuveiði 1006 laxar.
  2. Miðfjarðará 3.293 laxar - vikuveiði 302 laxar.
  3. Þverá/Kjarrá 2.022 laxar - vikuveiði 132 laxar.
  4. Eystri Rangá 1908 laxar – vikuveiði 135 laxar.
  5. Norðurá 1.662 laxar - vikuveiði 220 laxar.
  6. Blanda 1.430 laxar – vikuveiði 13 laxar
  7. Langá á Mýrum 1.383 laxar - vikuveiðin 69 laxar.
  8. Haffjarðará 1.130 laxar – vikuveiði 45 laxar.
  9. Grímsá í Borgarfirði 1.053 laxar – vikuveiði 85 laxar
  10. Laxá á Ásum 942 laxar – vikuveiði 72 laxar

Nánar má kynna sér þennan lista hér.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is