Stangveiðifélag Reykjavíkur með langhæsta tilboðið í Straumfjarðará

Veiðhúsið á bökkum Straumfjarðará.
Veiðhúsið á bökkum Straumfjarðará. straumfjardara.is

Veiðifélag Straumfjarðarár á sunnanverðu Snæfellsnesi auglýsti á dögunum eftir tilboðum í veiðirétt til næstu fimm ára og þegar tilboðin voru opnuð á miðvikudaginn kom í ljós að Stangveiðifélag Reykjavíkur var með risatilboð í ána til næstu fimm ára.

Samkvæmt upplýsingum frá Páli Ingólfssyni, formanni veiðifélagsins, reyndist tilboð Stangveiðifélagsins langhæst og var upp á 35 milljónir króna á ári til næstu fimm ára eða samtals 175 milljónir króna.  Kunnugir segja að þetta sé 40 til 45% hærra en leiguverðið fyrir síðastliðið sumar. Stjórn veiðifélagsins mun leggjast nánar yfir öll tilboðin og taka ákvörðun næstu daga um hvaða tilboði verður tekið.

Veitt er á fjórar stangir í ánni og í sum­ar veidd­ust þar 352 lax­ar.  Meðal­veiði frá 1974 er 375 lax­ar, en met­veiði var árið 2013 þegar 785 lax­ar komu á land. Lax­geng­ur hluti ár­inn­ar er um 12 kíló­metr­ar upp að foss­in­um Rjúk­anda. Fé­lagið Snasi ehf. hef­ur ann­ast leigu á ánni síðustu árin.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is