SKOTVIS brýnir fyrir mönnum að gæta hófs

Rjúpnakarri í vetrarklæðum.
Rjúpnakarri í vetrarklæðum. Ómar Smári Ármannsson

Af gefnu tilefni og vegna frétta af góðri rjúpnaveiði víða um land, fyrstu helgi af fjórum á þessu veiðitímabili, sá stjórn Skotveiðifélags Íslands ástæðu til að minna skotveiðimenn á að gæta hófs við veiðarnar.

Í sérstöku innleggi á Facebook-síðu félagsins í dag var þetta áréttað með eftirfarandi yfirlýsingu.

Mjög óvenjulegt tíðarfar í lok október gerði það að verkum að þéttleiki rjúpu hefur verið óvenju mikill, þ.e. fuglinn hópast á afmarkaða staði, þá helst þar sem skafla er að finna. Við slíkar aðstæður er von á mikilli veiði og sú varð raunin um síðustu helgi, þegar allmargir veiddu drjùgt. Víða er von á svipuðu tíðarfari um næstu helgi og vill SKOTVÍS beina þeim tilmælum til allra veiðimanna að gæta hófs við veiðar og nýta tækifærið til að máta sig við siðareglur félagsmanna SKOTVÍS sem er að finna á heimasíðu félagsins.

Réttindum til veiða fylgja ábyrgð og skyldur. Þeim sem nýta náttúrugæði ber siðferðisleg skylda til að ganga um auðlindina af virðingu og auðmýkt. Siðferðisviðmið verða ekki sett í lög, en þeir sem temja sér siðareglur félagsins eru öðrum fyrirmynd og hvatning til ábyrgrar framgöngu. Það eru forréttindi að geta stundað áhugamál eins og skotveiðar í fallegri náttúru, notið heilbrigðrar áreynslu og útiveru í góðum félagsskap. Tryggjum komandi kynslóðum möguleika á að njóta þess sama og stöndum vörð um þau lífsgæði sem felast í hófsömum skotveiðum, meðhöndlun og neyslu villibráðar.

Þá er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi.

1. nòvember 2017
Stjórn SKOTVÍS

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is