Samningar endurnýjaðir um Hofsá í Vopnafirði

Laxi landað úr Efri-Fosshyl í Hofsá í miklu vatni.
Laxi landað úr Efri-Fosshyl í Hofsá í miklu vatni. ÞGÞ

Inn á veiðifréttasíðunni Vötnogveiði kemur fram að Veiðiklúbburinn Strengur hefur framlengt leigusamning við landeigendur við Hofsá til næstu 6 ára. Nýi leigusamningurinn mun taka gildi frá 2018 til 2023.

Haft er eftir Gísla Ásgeirssyni, framkvæmdarstjóra Strengs, að átak verði gert til að ná ánni upp úr þeim öldudal sem hún hefur verið í síðustu ár meðal annars með því að grafa hrogn fyrir ofan og neðan laxgenga svæði árinnar eftir ráðgjöf fiskifræðinga.

Frá 2013 hefur veiðin í þessari fornfrægu veiðiá verið undir væntingum og veiddust 589 laxar þar síðastliðið sumar. Það reyndist þó umtalsvert betra en árið á undan þegar 492 laxar komu á land og þóttust menn þar eystra sjá einhver batamerki á áin í sumar.

Nokkrar ára niðursveiflur sem þessar eru þó alls ekki óþekktar í laxveiðiám á Norðausturlandi og var til dæmis meðalveiði í Hofsá árin 1981 til 1984 um 180 laxar. Mesta veiði þar voru árin 1992 þegar 2.238 laxar veiddust og 2.028 árið 1993. Meðalveiði frá 1974 hefur verið í kringum 1.000 laxar.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is