Munur í sýningarsal Skaftfells

Munur í sýningarsal Skaftfells

Verk þeirra Claudiu Hausfeld, Sindra Leifssonar, Evu Ísleifsdóttur og Elísabetar Brynhildardóttur sem birtast á sýningunni „Munur” takast á við spurningar um heim hlutanna á einn eða annan hátt.  Titill sýningarinnar vísar í margar áttir. Munur sem hlutur, gripur, eitthvað sem krefst varðveislu og undirstrikar verðmætamat, en sömuleiðis bil sem aðgreinir þegar tveir eða fleiri hlutir eru bornir saman.

Um þessar mundir er mikið horft til þeirra hluta sem umkringja menningarheim okkar, bæði í neyslumenningu sem sprengir öll eldri viðmið í framleiðslu og dreifingu varnings, en einnig vegna þess að eftir iðnbyltingu hafa í fyrsta sinn komið á sjónarsviðið manngerð fyrirbæri sem taka örskamma stund í framleiðslu en tugþúsundir ára í eyðingu. Hlutir sem skara gjörólíka tímaskala; hinn manngerða tímaskala og hinn jarðfræðilega. Á sama tíma beinist aukin athygli að lífi þessara hluta sem mikilvægra vísbendinga um gildismat og aðstæður menningarinnar

Bjarki Bragason, myndlistarmaður og lektor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands stýrir sýningunni sem er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Myndlistarsjóði.

Sýningarsalurinn er opinn daglega frá kl. 15:00-21:00, á sama tíma og Bistróið. „Munur” stendur til 28. jan 2018.

14. des. 2017 - 28. jan. 2018
Viðburði er lokið

Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands

Austurvegur 42, 710 Seyðisfjörður

+354 472 1632

Vefsíða viðburðar

Heimasíða staðar

+ SKRÁ VIÐBURÐ